Velkomin á jólasýningar í Minjasafninu á Akureyri og Nonnahúsi.

 

Á Minjasafninu opnar sýningin Jólin koma… þar sem jólastemningin svífur yfir borðum, bókstaflega. Á veggjum má sjá litmyndir frá nokkrum heimilum.

Hinn hluti sýningarinnar snýr að skólajólum. Á litlu jólum mættu krakkar í sínum fínustu fötum, fóru milli stofa til að skoða fagurlega skreyttar töflurnar, tóku á móti jólakortum og gæddu sér á heimabökuðum smákökum við skólaborðið með kerti og glæstum föndurverkefnum.

Þegar jólunum lýkur fara skringilegar verur á kreik, kveikt er í brennu og stignir dansar. Íþróttafélagið Þór hefur haldið utan um þessar verur og bálköst um langahríð eins og sjá má í myndasýningunni.

Þá er Litla-verzlunin búin að taka upp jólavörurnar – þar gera allir kjarakaup í búðarleik.

 

 Á neðri hæð safnsins er Jólasveinafjallið sem hægt er að gægjast inn í. Þá er þar að finna nokkra af óþekktu jólasveinunum. Vissir þú að jólasveinarnir voru ekki 13 heldur næstum 100!

 

Nonnahús hefur verið fært í jólabúning með jólaskrauti fyrri tíðar. Þar er hægt að næra nostalgíuna og eflaust finna jólaskrautið sem var til heima. Hægt er að bregða sér í hlutverk kjötkróks eða bjúgnakrækis eða rannsaka ýmsa muni sem tengjast jólasveinum.

 Sögurnar úr jólamánuðinum úr dagbókum Sveins Þórarinssonar, föður Nonna, spretta fram af veggjunum. Hvernig var jólaundirbúningnum háttað þegar foreldrar Nonna og systkin bjuggu í húsinu?

 Verið velkomin – ókeypis fyrir fullorðna í fylgd með börnum í desember

Einnig er tilboð á Ársmiða Minjasafnsins og tengdra safna

– aðeins kr. 2000 – já þú last þetta rétt.

Sýningarnar opna 2. desember og standa til 14. janúar.