Minjasafni­ ß Akureyri - Akureyri Museum

Minjasafnið á Akureyri, Akureyri Museum, Historicla Museum, Akureyri History, Exhibitions Akureyri, Menning á Akureyri

Flřtilyklar

Verklag vi­ mjˇlkurvinnslu og brau­ger­

Frá upphafi Íslandsbyggðar og fram undir miðja síðustu öld var öll nýmjólk sem var umfram daglegar þarfir heimilanna unnin til geymslu. Notuð var kúamjólk, sauðamjólk og geitamjólk. Nú er einungis notuð kúamjólk. Sauðamjólkin þótti best til þess að gera úr smjör og skyr. Smjör var oft notað sem gjaldmiðill til að greiða landskuldir, kaupa erlenda vöru og til vöruskipta.

Mjólk

Úr nýmjólkinni voru unnar þessar vörur:
Rjómi - smjör og áfir
Undanrenna - skyr - mysa - ostur og mysuostur.

Rjómi

Fitan í mjólkinni er í örsmáum fitukúlum, sem hafa þann eiginleika að setjast á yfirborðið, standi mjólkin óhreyfð um tíma. Fram undir aldamótin 1900 og jafnvel lengur var mjólkinni hellt í trog eða byttur og látin standa óhreyfð í þrjú dægur. Þá var rennt undir hana, sem kallað er, tappi var tekinn úr botni trogsins og undanrennan látin renna í annað ílát og sat þá rjóminn eftir í troginu.

Smjör

Undanrennan tekur nafn sitt af ofangreindri athöfn. Stundum var troginu hallað og haldið við rjómaskánina með hendinni þegar rennt var undan. Farið var að nota skilvindur um og uppúr aldamótunum 1900. Rjóminn var kældur og síðan strokkaður. Fyrr á tímum í bullustrokk en síðan í sveifarstrokk með fötu og spaða sem þeytti rjómann þar til hann féll saman. Þá voru í strokknum smjörkorn og áfir. Smjörkornin voru síuð frá áfunum og þvegin í mörgum hreinum vötnum þar til ekki sást mjólkurlitur á vatninu. Síðan var smjörið hnoðað á bretti eða í trogi og búnar til hæfilega stórar skökur eða dömlur, sem vafið var í smjörpappír. Á sumum stöðum voru til smjörmót, sem tóku vissa þyngd. Einnig var smjörinu drepið í kvartél ef mikið var búið til af því og það síðan selt eða geymt til vetrarins. Áður fyrr og fram undir aldamótin 1900 jafngilti smjör peningum og var notað til að greiða afgjöld af jörðum og vöru. Meðan siður var að skammta heimilisfólki mat voru sérstakar smjöröskjur fyrir hvern heimilismann jafnt karlmenn, konur og börn, sem skammtað var í til vikunnar.

Áfir

Áfir voru vökvinn sem varð eftir þegar smjörið hafði verið strokkað úr rjómanum. Þær voru notaðar til drykkar eða í súpur og grauta.

Undanrenna

Úr undanrennunni var gert skyr og ostur. Skyrgerð var nokkuð vandasamt verk. Fyrst var undanrennan hituð að suðu (flóuð) og síðan kæld niður í 36 gráður á Celcius. Þá var blandað í hana hæfilega miklu hleypi og þétta. Hleypir var áður búinn til heima úr kálfsmögum og lyfjagrasi, en síðan fluttur inn frá útlöndum. Hleypirinn hleypti eggjahvítuefni í undanrennunni. Þéttinn, sem var úthrært skyr frá síðustu skyrgerð var settur í og komu þá hreinræktaðir mjólkursýrugerlar í nýja skyrið. Ílátið var byrgt með hlemmi og þykku blaði, svo innihaldið kólnaði ekki of fljótt og látið bíða um það bil klukkustund. Þá var hlemmurinn tekinn af. Daginn eftir var skorið í hlaupið í skyrdollunni til þess að mysan færi að skilja sig. Skyrgrind með léreftssíu var lögð ofan á opna tunnu og síðan var hlaupinu ausið á grindina og látið standa þar til hæfilegt þótti, þ. e. skyrið var hæfilega þétt.

Mysan

Mysan var notuð til drykkjar. Henni var safnað í tunnur og keröld þar sem hún súrnaði eða braut sig eins og kallað var. Síðan var hún notuð til geymslu á slátri og öðrum búmat. Þegar mysan varð vel súr var hún kölluð sýra. Sýra þynnt með vatni var kölluð blanda og var helsti svalardrykkurinn fyrr á árum auk vatnsins. Góð blanda þótti afar svalandi.

Ostur

Ostur var búinn til úr undanrennunni en fyrst þurfti að flóa hana svo hún yrði hæfilega heit. Þá var bætt í hana hleypi og hún látin standa þar til hún var hlaupin. Þá var ostefnið sem var kallaður drafli, síaður frá mysunni, hnoðaður saman og settur í ostmót með götum og rann þá mysan burt. Ostmysan var notuð í mysuost.

Mysuostur

Mysan var soðin við hægan eld þar til hún þykknaði. Stöðugt þurfti að hræra í henni. Ef það var ekki gert varð osturinn með hörðum kornum. Þá var sagt að hann væri sendinn. Þegar osturinn var orðinn hæfilega þykkur var hann settur í skálar eða mót og hafður á flatkökur.

Á herðum húsmóðurinnar

Þessi mjólkurmatargerð krafðist óhemju vinnu og mikils þrifnaðar. Ef hirðingu þessara mjólkuríláta, sem öll voru úr tré, var í einhverju ábótavant, gat það kostað það að matarbyrgðir heimilisins spilltust eða yrðu bragðvondar. Það hvíldi á húsmóðurinnar herðum að sem best væri unnið úr þessari matvöru.
Til eru fjölmörg máltæki og málshættir sem varða þessa matargerð.

Brauð

Brauðgerð fyrr á tímum var mjög einhæf þar til eldavélar með ofnum komu til sögunnar. Bakaðar voru tvær tegundir af brauði til hversdagsbrúks, flatbrauð og pottbrauð.

Flatbrauð

Flatbrauðið var einnig kallað flatkökur eða bara kökur. Það var búið til úr rúgmjöli og vatni. Eitt pund rúgmjöls og rúmur peli af vatni. Þetta var hnoðað vel, skipt í jafna bita sem flattir voru með flösku eða trékefli í kringlóttar kökur, sem voru pikkaðar, raðað í trog og síðan bakaðar á hlóðunum þegar eldmennsku dagsins var lokið og komin var góð glóð á hlóðirnar. Glóðin var sléttuð vel og flatkökurnar annað hvort bakaðar beint á henni eða á járnplötu sem sett var ofaná glóðina. Notað var spjald - físispjald eða físifjöl til að lífga við glóðina eftir þörfum meðan bakað var. Þá var það kallað að físa í eldinn. Kökunum var síðan starfað saman volgum, en stundum voru þær bleyttar með vatni eða stroknar með deigum klút til þess að þær yrðu mýkri. Nýjar flatkökur með nýstrokkuðu smjöri eru hreint sælgæti.

Pottbrauð

Á átjándu öld mun fyrst hafa verið farið að gera lyft brauð hér á landi. Þau voru kölluð pottbrauð. Ekki voru til bakaraofnar á Íslandi eins og fyrr sagði en þess í stað notaðir járnpottar sem hvolft var yfir brauðið. Eins og við flatbrauðsgerð, var heit glóðin að lokinni eldamennsku sléttuð vel að ofan, járnplata lögð á og þar ofan á brauðið. Ofan á allt saman var svo hvolft stórum potti. Síðan var skarað að glóð upp með og ofan á pottinn og breidd yfir aska, moð eða afrak. Brauðið var látið seyðast í sex til tólf tíma. Einnig var pottbrauð bakað þannig að pottur var smurður innan með góðri feiti og deiginu þjappað þar í, hlemmur settur á eða öðrum potti hvolft yfir. Potturinn var grafinn ofan í glóðina, glóð sett upp með og yfir og byrgt vel með ösku.

Tekið saman og ritað af Gerði Pálsdóttur hússtjórnarkennara fyrir Minjasafnið á Akureyri 1995.
Aukið og endurbætt 2002.

OpnunartÝmi/Opening hours

Minjasafnið á Akureyri - Akureyri Museum 

14. maí  - 1. október.
Alla daga / Daily kl. 10-17

2. október - 31.maí
Alla daga / Daily kl. 13-16

Gamli bærinn Laufás - Old Turfhouse Laufás

14. maí -1. október:
Alla daga 9-17

June 1.-October 1.  
Daily 9-17

Vetur/Winter
Opið fyrir hópa/Open for groups

Sími/Tel: 895-3172
E-mail: laufas@minjasafnid.is 

Nonnahús - Nonni's House

1.júní -3. september

Daglega/Daily 10-17

4. september - 1. október 2017

Opið 10-17 fimmtudag-sunnudags
Open 10-17 Thursday - Sunday

Davíðshús
Davíðs Stefánsson Writers home


Opið þriðjudag - laugardags 13-17
frá 1.júní - 1. September

Open Tuesday - Saturday 13-17
from 1. June - 1. September

sími/Tel: 462-4162 

Aðgangseyrir/Admission

18+ 1500 kr.

Sólarhringskort á söfnin/24H pass to our museums 2000 kr

15% Hópafsláttur (10+) /Group discount (10+)

Séropnun utan opnunartíma/Special opening: 20.000 kr + aðgangseyrir/admission fee

                         

Skrifstofa Minjasafnsins
The Museum office
Opið/Open: 
Virka daga/Weekdays 8-16. 

Sími/Tel: 462 4162 & 847 4235
Sími/Tel: Laufás 463-3196 & 895-3172
Sími/Tel: Davíðshús 462 4162 / 571-1830
Sími/Tel: Nonnahús 462-3555 / 462 4162

minjasafnid@minjasafnid.is

Tekið á móti skólahópum alla virka daga.
Bókanir hjá ragna@minjasafnid.is

  Minjasafnið á götukorti - FIND US ON A MAP

Vidurkennt safn
...

Innskrßning

moya - Útgáfa 1.10 RC1 2006 - Stefna ehf

Framsetning efnis

English