laufas1_400_01

Laufás kemur við sögu skömmu eftir að Ísland byggðist og þar hefur staðið kirkja frá fyrstu kristni. Í katólskum sið var hún helguð Pétri postula. Prestssetur hefur verið í Laufási frá fyrstu kristni og er enn. Síðasti presturinn sem bjó í gamla bænum, séra Þorvarður Þormar, flutti árið 1936 í nýtt prestssetur og þar bjuggu Laufássprestar fram til ársins 2000.
Sú kirkja sem nú stendur í Laufási var byggð 1865. Meðal merkra gripa í eigu kirkjunnar er predikunarstóll sem ber ártalið 1698. Við austurgafl kirkjunnar stendur eitt elsta reynitré landsins frá 1855.

Búsetu í Laufási má rekja allt aftur til heiðni en í elsta hluta gamla bæjarins sem nú stendur er talið að séu viðir allt frá 16. og 17. öld. Bærinn var endurbyggður af mikilli reisn í tíð séra Björns Halldórssonar sem sat staðinn árin 1853-1882. Laufásbærinn er stílhreinn burstabær, dæmigerður fyrir íslenska bæjagerð þess tíma, en þó allmiklu stærri. Algengt var að tuttugu til þrjátíu manns væru til heimilis í Laufási, því margt vinnufólk þurfti til að nytja þessa gróðursælu kostajörð en henni fylgdu mikil hlunnindi.

Laufásbærinn er í dag búinn húsmunum og áhöldum líkast því sem tíðkaðist í kringum aldamótin 1900.

Í gamla prestssetrinu sem er í eigu Minjasafnsins á Akureyri hefur verið rekin Gestastofa Laufáss frá sumrinu 2014. Þar er lögð áhersla á móttöku ferðamanna og gesta, meðal annars með fræðslu um sögu staðarins, náttúruna og nánasta umhverfi. Hægt er að fá kaffi og léttar veitingar og njóta útsýnisins eða líta í bók og blöð í bókahorninu. Þá er einnig starfrækt í Gestastofunni handverks- og minjagripaverslun þar sem gefur að líta fjölbreytt vöruúrval m.a. frá handverksfólki af svæðinu.

Gamli bærinn í Laufási er hluti af húsasafni Þjóðminjasafns Íslands. Minjasafnið á Akureyri hefur umsjón með gamla bænum og sér um rekstur hans.

 Gjaldskrá   & Opnunartímar

Myndir úr Laufási

 

Þjónustusími og bókanir fyrir hópa: 463 3196 eða 895 3172. - laufas@minjasafnid.is