Minjasafnsgarðurinn er ein af perlum Minjasafnsins og safngripur í sjálfu sér. Garðurinn er einn örfárra varðveittra íslenskra skrúðgarða frá aldamótunum 1900.

Minjasafnsgarðurinn var settur á fót árið 1899 sem trjáræktarstöð að frumkvæði yfirvalda í Eyjafirði og Sigurðar Sigurðssonar, síðar skólastjóra á Hólum og búnaðarmálastjóra. Í garðinum var fyrsta trjáræktarstöðin á Íslandi.

Fjótlega eftir aldamótin 1900 var farið að dreifa trjágræðlingum úr garðinum, og líklega á blómleg skrúðgarðaræktun Akureyringa alla tíð síðan rætur í þessum garði. Árið 2000 mældust í Minjasafnsgarðinum hæsta birkitré landsins, 14.70 m. og hæsta reynitréð, 14.30 metra hátt.
Unnið hefur verið að endurbótum á garðinum og er hönnuður endurbóta Einar E. Sæmundsen landslagsarkitekt.