Stoð - Vinahópur Minjasafnsins á Akureyri
Skýrsla stjórnar starfsárið 2003-2004.

Á starfsárinu hafa verið haldnir 4 fundir, þ.e.a.s. í september 2003, nóvember 2003, janúar 2004 og núna 5. maí 2004 sem er um leið aðalfundur. Á fundinum 10. september gerði Guðrún Kristinsdóttir, safnstjóri Minjasafnsins, grein fyrir starfi safnsins suamrið 2003 og áætlunum um starfið á komandi vetri. Á fundinum 5. nóvember var Þór Sigurðsson, umsjónarmaður myndasafns Minjasafnsins, gestur fundarins og fræddi hann fundarmenn um myndasafnið. Á fundinum 7. janúar gerði Guðrún Kristinsdóttir, safnstjóri, grein fyrir helstu viðfangsefnum Minjasafnsins sem væru í undirbúningi á árinu 2004. Í stað fundar í mars var boðað til ferðar sunnudaginn 7. mars fram í Sólgarð í Eyjafjarðarsveit til að skoða Smámunasafnið, sem er með munum Sverris Hermannssonar, smiðs.

Á fundinum 7. janúar gerði safnstjóri grein fyrir munum sem sr. Ágúst Sigurðsson hefði komið með í safnið um haustið. Meðal þessara muna var söðull sem talið er að Jón Jónsson Borgfjörð (1853-1913) söðlari, sem var búsettur á Akureyri frá 1882 til dauðadags, lengst af í Strandgötu 27, hafi smíðað um 1880 fyrir sr. Theodór á Bægisá, sem síðan gaf konu sinni hann í morgungjöf. Þennan söðul vildi sr. Ágúst selja safninu en safnið hefur ekki fjárveitingar til að kaupa muni. Var því samþykkt á fundinum að STOÐ tæki málið að sér og mætti nota til þess allt að 30.000 kr. úr sjóði félagsins. Var síðan haft samband við sr. Ágúst og gengið frá kaupum á söðlinum.

Í júní 2003 aðstoðaði Kristín við kynningar á sögupersónum í Minjasafninu. Í lok ágúst 2003, á Akureyrarvöku, var haldin „draugavaka” í Minjasafninu og þau Björg Guðjónsdóttir og Hallgrímur aðstoðuðu við framkvæmdina. Þegar ljósmyndasýning Lenna var opnuð4. október 2003 aðstoðuðu Halla og Ólöf við veitingar o.fl.

Á sumardaginn fyrsta 2004 veittu þau Halla Hallgrímur, Ingólfur og Ólöf aðstoð við veitingar, leit að sögnum um sumardaginn fyrsta og upplestur úr þeim gögnum.


Akureyri 5. maí 2004
f.h. stjórnar STOÐAR
Ingólfur Ármannsson