FUNDIR.

Eftir aðalfund skipti nýkjörin stjórn með sér verkum; Hallgrímur Gíslason formaður, Halla Kristmunda Sigurðardóttir ritari og Ingólfur Ármannsson gjaldkeri.

Á starfsárinu hafa að venju verið haldnir 5 félagsfundir. Fyrsti fundurinn, sem haldinn var í Minjasafninu 7. september, var skipulagsfundur fyrir Stoðdaginn. Þar skiptu félagar m.a. með sér verkum.

Fundurinn 9. nóvember var haldinn í Minjasafninu. Gestur fundarins var Guðrún M. Kristinsdóttir, forstöðumaður safnsins. Hún greindi frá starfsemi safnsins á liðnu sumri og hvað væri framundan.

Fundurinn 11. janúar var haldinn í Minjasafninu. Gestur fundarins var Kristín Sóley Björnsdóttir, verkefnisstjóri Gásaverkefnisins. Skýrði hún frá rannsóknunum á Gásum, sem staðið hafa yfir frá árinu 2001, en lýkur í ár. Skýrði hún frá heimildum um Gása, framleiðslu á staðnum, muni sem fundist hafa við uppgröft o.fl. Einnig útskýrði hún tillögur um framtíð Gása.

Fundurinn 1. mars var einnig haldinn í Minjasafninu. Gestur hans var Guðrún M. Kristinsdóttir. Greindi hún frá áætlunum um starfsemi safnsins fram á haust. Gert er ráð fyrir að Stoðfélagar geti komið að ýmsum verkefnum eins og sumardeginum fyrsta, sem áætlað er að verði leikjadagur. Mikil dagskrá verður í sumar tileinkuð séra Jónasi Jónassyni frá Hrafnagili og Þjóðháttum hans, vegna 150 ára afmælis Jónasar. Atburðir verða öðru hverju frá maí og fram á haust, á Akureyri, Laufási og á Hrafnagili. Þá er ætluð draugaganga síðari hluta ágúst eins og verið hefur.
Á fundinum var ákveðið að helga Stoðdaginn 2006 séra Matthíasi Jochumssyni. Formaður var búinn að fá stóran hluta heimildarsafns Þórunnar Valdimarsdóttur, sem hún nýtti til að rita sögu Matthíasar, sem áætlað er að komi út nú í haust. Einnig fékk hann handritið að bókinni frá Þórunni. Félagar skiptu með sér verkum við heimilda-lestur. Þorsteinn tók að sér að lesa um ritstjórann Matthías, Ingólfur um Innbæjarár hans, Halla um Sigurhæðaárin og Hallgrímur um trúmálin.

Fimmti fundur starfsársins er svo aðalfundurinn, 3. maí. Dagskrá hans er hefðbundin. Skýrsla fráfarandi stjórnar (formanns og gjaldkera), kosin þriggja manna stjórn sem skiptir með sér verkum, ákvörðun fundardaga næsta starfsárs og önnur mál.

Formlegir stjórnarfundir hafa verið fyrir félagsfundina. auk þess voru haldnir nokkrir undirbúningsfundir vegna Stoðdagsins 2005.

ÖNNUR STARFSEMI.

Björg og Hallgrímur aðstoðuðu við söngvöku í Minjasafnskirkjunni 27. ágúst og við undirbúning draugagöngu sama dag.

Fyrsti Stoðdagurinn var haldinn fyrsta vetrardag 22. október. Á aðalfundinum 4. maí var ákveðið að tileinka dagskrána fyrsta kirkjuorgelinu við fjörðinn, en það var vígt í Möðruvallaklausturskirkju 24. október 1875. Fjallað var um upphaf hljóðfæra á Íslandi, hljóðfæraleik á Norðurlandi á 19. öld, fyrsta kirkjuorganistann við Eyjafjörð, aðra orgelleikara við fjörðinn 1875-1900 og tvo orgelsmiði. Björg, Halla og Hallgrímur sáu að mestu um heimildaöflun. Einkum innti Björg mjög óeigingjarnt starf af hendi. Ingólfur aðstoðaði við skráningu og sá ásamt hinum þremur um flutning erinda á Stoðdaginn 22. október. Gerður aðstoðaði lítillega við heimildaöflunina. Þorsteinn, Ingólfur og Jóhannes sáu um flutning á munum ásamt þeim Þór Sigurðarsyni og Róari Ottemo (syni Bjargar). Óskar Ægir sá um gerð veggspjalds og texta. Unnur Þorsteinsdóttir, Björg og Hallgrímur sáu um uppsetningu texta, ásamt Höllu og Gústafi manni hennar. Unnur aðstoðaði einnig við framreiðslu á veitingum á Stoðdaginn ásamt Ólöfu Jónasdóttur. Halla tók að sér innkaup og kleinubakstur. Auk þeirra sem áður er getið veittu ýmsir utanaðkomandi aðilar heimildir. Starfsstúlkur Héraðsskjalasafnsins veittu drjúgt liðsinni, sem og starfsfólk Amtsbókasafnsins og Minjasafnsins.
Eftirtaldir aðilar lánuðu muni eða bækur á sýninguna: Héraðsskjalasafnið á Akureyri, Amtsbókasafnið á Akureyri, Minjasafnið á Akureyri, Ingvi Rafn Jóhannsson, Sigurður Jóhann Stefánsson frá Stærra-Árskógi, Sigurgeir Haraldsson, Björg Guðjónsdóttir, Unnur Þorsteinsdóttir, Þórður Harðarson, Þyrí Eydal og afkomendur Ólafs Tryggva Jónssonar, sem var fyrsti kirkjuorganistinn við Eyjafjörð. Dagskráin þótti takast vel og mættu um 50 gestir.

Sumardagurinn fyrsti: Gústaf sá um uppsetningu á sumardagsborðanum með aðstoð Þórs. Halla og Ólöf bökuðu 300 lummur og stóðu sig vel að vanda. Hallgrímur sá um fræðslu um sumardaginn fyrsta o.fl. Björg þeytti allan rjóma og aðstoðaði á ýmsan annan hátt. Guðrún hitaði kakóið að venju. Þrátt fyrir gott veður var enn of blautt fyrir útileiki, en Haraldur sá um sumarkortagerð fyrir börnin. 2 stúlkur úr Tónlistarskólanum stjórnuðu fjöldasöng við gítarundirleik. Einnig var leitt undir börnum á hestbaki. Talið er að um eða yfir 400 manns hafi mætt á svæðið.

Skráðir félagar voru 12 í upphafi starfsárs, Kristján Kristjánsson var í fríi allt starfsárið, en Björg Guðjónsdóttir eftir Stoðdaginn, nema hvað hún aðstoðaði á Sumardaginn fyrsta.
 

      Akureyri  í maí 2006.
      F.h. stjórnar STOÐAR.
      Hallgrímur Gíslason.