FUNDIR

 Eftir aðalfund skipti nýkjörin stjórn með sér verkum; Hallgrímur Gíslason formaður, Halla Kristmunda Sigurðardóttir ritari og Ingólfur Ármannsson gjaldkeri. Fyrsti félagsfundur starfsársins var haldinn í Minjasafninu 6. september og var það skipulagsfundur fyrir Stoðdaginn. Á fundinum var ákveðið að færa fundartímann til og hafa hann annan miðvikudag í sömu mánuðum og á sama tíma og verið hefur, kl. 17. Ástæða breytingarinnar er að fundir stjórnar Minjasafnsins verða framvegis fyrsta miðvikudag í hverjum mánuði kl. 18.  Í stað fundar sem vera átti 8. nóvember var farið í Aðventuveislu í Íþróttahöllinni þann 9. desember. Þar voru tónleikar með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og söng Karla-kórs Dalvíkur, Huldu Bjarkar Garðarsdóttur og Ólafs Kjartans Sigurðarsonar. Á eftir var ljúffengt jólahlaðborð frá Bautanum. Minjasafnið bauð Stoðvinum til veislunnar.  Fundurinn 10. janúar var haldinn í Minjasafninu. Þar fræddi Guðrún M. Kristinsdóttir okkur um það sem helst var framundan hjá safninu. Einnig var rætt um efni fyrir Stoðdaginn 2007. Nokkrar hugmyndir lágu fyrir og var ákveðið að taka fyrir verkefnið Kjarnakonur í Innbænum. Útfærsla á verkefninu beið marsfundar. Valgerður Jónsdóttir gekk til liðs við félagið á fundinum. Fundurinn 13. mars var einnig haldinn í Minjasafninu. Guðrún M. Kristinsdóttir var gestur fundarins og fór hún yfir drög að viðburðadagatali ársins á Minjasafninu og tengdum söfnum. Einnig var rætt um stoðdaginn 27. október. Ákveðið var að afmarka dagskrána við konur sem uppi höfðu verið á tímabilinu 1890-1940. Einnig var ákveðið að aðaláherslan yrði lögð á 2 konur; Elísabetu Geirmundsdóttur og Ragnheiði O. Björnsson. Styttri erindi verða flutt um 3 konur; Sigurbjörgu Jónsdóttur í Syðstahúsi,  Gunnhildi Ryel í Kirkjuhvoli og Önnu Margréti Magnúsdóttur, ljósmyndara og kaup-konu. Einnig er ætlunin að minnast á nokkrar kjarnakonur til viðbótar. Stoðfélagar munu afla heimilda um konurnar.  Fimmti fundur starfsársins er svo aðalfundurinn, 9. maí. Dagskrá hans er hefðbundin. Skýrsla fráfarandi stjórnar (formanns og gjaldkera), kosin þriggja manna stjórn sem skiptir með sér verkum, ákvörðun fundardaga næsta starfsárs, ákvörðun árgjalda og önnur mál.  Formlegir stjórnarfundir hafa verið fyrir félagsfundina. auk þess voru haldnir nokkrir fundir til undirbúnings Stoðdagsins 2006. Einnig mættu stjórnarmenn á undirbúnings-fund vegna sumardagsins fyrsta.

   

ÖNNUR STARFSEMI.

 Stoðfélagar tóku þátt í dagskrá um Jónas Jónasson á Hrafnagili. Annars vegar flutti Halla K. Sigurðardóttir erindi um vinnuhjúaskildaga sunnudaginn 14. maí í Laufási ásamt þeim Guðrúnu M. Kristinsdóttur og Ingibjörgu Siglaugsdóttur. Hins vegar flutti Þorsteinn Þorsteinsson erindi um veðurfar og fuglaveðurspár á kvöldvöku í Laufási fimmtudaginn 6. júlí. Stoðdagurinn 1. vetrardag, 21. október, var að þessu sinni helgaður séra Matthíasi Jochumssyni. Á vordögum var haft samband við Þórunni Valdimarsdóttur, sem þá var að ljúka við að skrifa sögu Matthíasar. Hún var mjög fús til samstarfs og sendi okkur í tölvupósti handritið að bók sinni, sem og þau atriði úr heimildaskrá sinni, sem við óskuðum eftir. Dagskráin fór fram á Amtsbókasafninu. Þorsteinn Þorsteinsson flutti þar erindi um ritstjórann Matthías, Ingólfur Ármannsson um Innbæjarár hans, Halla K. Sigurðardóttir um Sigurhæðarárin og Hallgrímur Gíslason um trúarskoðanir hans. Að lokum las Þórunn Valdimarsdóttir upp úr bók sinni, Upp á sigurhæðir. Í hléi sungu stúlkur úr einum af barnakórum Akureyrarkirkju undir stjórn Arnórs Vilbergssonar. Þátttaka fór fram úr okkar björtustu vonum og mættu 110-120 gestir og var ekki annað að sjá og heyra en dagskráin hefði tekist vel. Eftir að dagskránni lauk var opið hús í Sigurhæðum, þar sem fólki gafst kostur á að skoða hús skáldsins, auk þess sem Akureyrarbær bauð upp á kaffi og vöfflur. Halla sá um kaffiveitingar á opnun sýningarinnar Þekkir þú – hýbýli mannanna?, 10. febrúar 2007, með aðstoð Hallgríms og starfsfólks Minjasafnsins. Á sumardaginn fyrsta var fjölbreytt dagskrá inni og úti á safnasvæðinu. Hallgrímur og Björg voru búin að setja saman grein um búleiki og fengu drjúga aðstoð hjá Þór Sigurðssyni á Minjasafninu og Erni Björnssyni, tengdasyni Bjargar. Hallgrímur og Þór settu einnig saman vísur um bernskuleiki sína. Haraldur setti greinina inn á heima-síðuna akmus.is nokkrum dögum fyrir hátíðina. Gústaf og Halla sáu um að setja upp auglýsingaborðann. Óskar Ægir gerði auglýsingaspjald. Björg og Hallgrímur settu upp bú með leggjum, skeljum og fleiru daginn áður og útbjuggu leiksvæði um morguninn. Halla, Ólöf og Valgerður önnuðust lummubakstur, Guðrún sá um kakóið, Ingólfur og Hrefna Hjálmarsdóttir, kona hans, önnuðust afgreiðslu. Hallgrímur og Björg önnuðust fræðslu og sáu um leiki í búi Stoðar og á flötinni neðan götunnar. Pokahlaup, reiptog og leggjahlaup reyndust vinsælastu leikirnir. Yngri sem eldri gestir skemmtu sér hið besta, en talið er að á sjötta hundrað manns hafi mætt á hátíðina.  Skráðir félagar voru 11 í upphafi starfsárs, þar af 3 aukafélagar. Valgerður Jónsdóttir gekk til liðs við okkur á starfsárinu og bjóðum hana innilega velkomna í Stoð. Óhætt er að segja að starfsemin hafi verið ótrúlega mikil á árinu og færir stjórnin félögunum kærar þakkir fyrir frábært samstarf.                                                             

Akureyri  í maí 2007.

F.h. stjórnar STOÐAR
Hallgrímur Gíslason