Stoðvinir Minjasafnsins á Akureyri.Stofndagur 4. september 2002.  

Skýrsla stjórnar starfsárið 2008-2009.  

FUNDIR. Stjórn Stoðar var óbreytt frá síðasta starfsári; Hallgrímur Gíslason formaður, Halla Kristmunda Sigurðardóttir ritari og Ingólfur Ármannsson gjaldkeri. Fyrsti félagsfundur starfsársins var haldinn í Minjasafninu laugardaginn 6. september. Farið yfir fyrstu hugmyndir að skipulagi Stoðdagsins og rætt um möguleika á að virkja félagana betur í þágu safnsins.  Undirbúningsfundir fyrir Stoðdaginn voru haldnir 23. september og 14. október. 23. október var svo unnið að uppsetningu.  Nóvemberfundurinn var haldinn 8. nóvember. Haraldur Þór Egilsson safnstjóri sagði okkur frá fyrirhugaðri sýningu um barnamenningu næsta sumar. Sýningin gæti orðið æði fjölbreytt og bað hann okkur að hugsa um hvað kæmi til greina að gera.   Janúarfundurinn var haldinn laugardaginn 10. janúar. Þar var farið yfir vinnu við setja myndir í umslög og almennar umræður um félagaöflun og önnur félagsmál. Ætlunin var að fara upp að Naustum og skoða muni í geymslum Minjasafnins, en þeirri ferð var frestað til 4. febrúar. Þann dag skoðuðu Stoðfélagar  munina.  Fundurinn 14. mars var haldinn í Minjasafninu. Haraldur Þór Egilsson fór yfir hugmyndir um sumardaginn fyrsta og sýningu á leikjum og störfum barna sem verður sumarsýning 2009. Að því loknu kynnti Haraldur okkur hvernig skráning muna fer fram. Undirbúningsfundir fyrir sumardaginn fyrsta voru haldnir 18. og 21. apríl. Fimmti fundur starfsársins er svo aðalfundurinn, 16. maí. Dagskrá hans er hefðbundin. Skýrsla fráfarandi stjórnar (formanns og gjaldkera), kosin þriggja manna stjórn sem skiptir með sér verkum, ákvörðun fundardaga næsta starfsárs, ákvörðun árgjalda og önnur mál.  Formlegir stjórnarfundir hafa almennt verið fyrir félagsfundina, en einnig hefur stjórnin haft samskipti í gegnum síma og tölvupóst.               

 ÖNNUR STARFSEMI. Á degi barnsins 25. maí færðum við búið okkar frá brekkunni ofan við Nonnahús og í Minjasafnsgarðinn. Við það tækifæri voru teknar myndir af Jökli Guðmundssyni og 2 stúlkum að leika sér í búinu og birtist ein þeirra í Vikudegi.  Bára Ólafsdóttir, Hallgrímur og Óskar Ægir Benediktsson fóru ásamt Guðrúnu M. Kristins-dóttur til Hríseyjar 17. júlí til að ganga frá málsháttum, máltækjum, ljóðum, sjóferðabænum og ýmsu fleiru sem félagar höfðu safnað um veturinn fyrir Hákarlasafnið. Gengum frá efni í möppur og plöstuðum það efni sem á að fara á standa. Guðrún Kristjánsdóttir í Hrísey ætlar að sjá um að koma því upp.  Björg Guðjónsdóttir aðstoðaði við Draugagönguna á Akureyrarvöku 29. ágúst.  Stoðdagurinn 1. vetrardag, 25. október, var helgaður sýningunni Hvað er í matinn, á Minjasafninu. Undirritaður fór í viðtal í svæðisútvarpinu daginn áður. Fyrirkomulagið var þannig að við höfðum „Fróðleiksstöðvar“ í öllum sölum safnsins. Í kjallaranum var áhersla lögð á sjávarfang, gróðurávexti, dýra- og fiskabein, auk álftafjaðra. Gestir fengu að smakka söl. Á Eyjafjarðarsýningunni var fræðsla um jurtir og gefið að smakka bæði jurta- og fjallagrasate. Í Kirkjuhvolssölunum var hægt að smakka missúrar sviðalappir, fylgjast með skyrgerð, smakka blandaða mysu og saft. Einnig var þar málsháttasúpa í potti, málshættir, máltæki og húsráð voru í boði. Þar sem og víðar um húsið var svo boðið upp á pönnukökur og kartöflulummur. 8 félagar, 1 aðstoðarkona og Haraldur Þór tóku þátt í störfum dagsins.  Nokkrir félagar sinntu vinnu við að setja myndafilmur í umslög. 3 félagar aðstoðuðu við opnun sýningarinnar: Þekkir þú…áningastaðinn?.  Á sumardaginn fyrsta var fjölbreytt dagskrá inni og úti á safnasvæðinu að venju. Auglýsingaborðinn var settur upp og myndir nýttar til að kynna staðsetningu atburða. 12 laganir eða um 750 lummur og 40 lítrar af kakói reyndust ekki vera nóg að þessu sinni, enda talið að um 800 manns hafi mætt á svæðið. Pokahlaup og reiptog voru á flötinni neðan við götuna og var þó nokkur þátttaka í því. Útibúið var staðsett sunnan við Nonnahús. Eingöngu var búið að byggja eitt fjárhús þegar gestir komu, en þeir sáu um að  byggja rétt, reisa girðingar og huga að búsmalanum. Aðrir liðir voru þeir að Blásarahópur Tónlistarskóla Akureyrar lék, Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri á Akureyri, veitti Rafeyri viðurkenningu vegna hjartans í Vaðlaheiðinni, gestir mynduðu hjarta, teymt var undir börnum í garðinum og þau fóru í hestakerru. Kjördagur barnanna var einnig á dagskrá og var kosið um nafn á sumarsýningu safnsins, börnin fengu að teikna sjálfsmyndir, auk þess sem þau sippuðu, fóru í París, húlluðu, krítuðu og blésu sápukúlur. Starfskrafturinn var ekki nægur að þessu sinni. 5 starfsmenn Minjasafnsins tóku þátt í störfum dagsins og 10 á vegum Stoðar.  Á Eyfirska safnadaginn 2. maí sáu 2 Stoðfélagar um leiðsögn í safnastrætó. Skráðir félagar voru 11 í upphafi starfsárs, þar af 1 aukafélagi og 1 var í fríi þetta starfsár. Væntanlega verður nýr og öflugur félagi tekinn inn á aðalfundinum.  Starfsemin hefur verið býsna mikil á starfsárinu og virkni félaga verið sérlega góð. Stjórnin færir félögunum og öðrum sem veitt hafa aðstoð kærar þakkir fyrir frábært samstarf.                          

                  Akureyri  í maí 2009.   F.h. stjórnar STOÐAR.              Hallgrímur Gíslason.