FUNDIR. 

Stjórn Stoðar var óbreytt frá síðasta starfsári; Hallgrímur Gíslason formaður, Halla Kristmunda Sigurðardóttir ritari og Ingólfur Ármannsson gjaldkeri. Fyrsti félagsfundur starfsársins var haldinn í Minjasafninu miðvikudaginn 12. september. Á fundinum fór Guðrún M. Kristinsdóttir forstöðumaður Minjasafnsins yfir starfsemi sumarsins og því helsta sem framundan er. Einnig var farið yfir fyrstu hugmyndir að skipulagi Stoðdagsins.  8. nóvember var opinn fundur í Minjasafninu. Haraldur Þór Egilsson safnkennari ræddi við okkur um hreinlæti Íslendinga fyrr á tíð og síðan var stutt kynning á starfsemi Stoðar. 2 nýir félagar gengu til liðs við okkur, þeir Gunnar Helgason og Jökull Guðmundsson.  Janúarfundurinn var haldinn laugardaginn 12. janúar að Hrauni í Öxnadal. Þar var rætt vítt og breitt um félagsstarfið, einkum um Stoðdaginn og mögulegar breytingar á honum. Fjallað var um möguleikann á að vera með styttri dagskrár inni á Minjasafni, t.d. mánaðarlega yfir vetrartímann. Einnig var skoðuð sýning um Jónas Hallgrímsson, sem sett var upp í tilefni 200 ára fæðingarafmælis hans 6. nóvember 2007.  Fundurinn 12. mars var haldinn í Minjasafninu. Bára Ólafsdóttir gekk til liðs við Stoð í upphafi fundar. Hugað var að verkaskiptingu fyrir sumardaginn fyrsta og Guðrún sagði okkur frá fyrirhuguðum og líklegum breytingum á rekstri safnsins, sem hefur tekið við rekstri Nonnasafns. Óljósara er með Friðbjarnarhús og Gudmannsminde og reksturinn í Laufási eftir að Inga hættir í lok september. Einnig var rætt lítillega um Stoðdaginn, en þar verða tekin fyrir atriði tengd Minjasafninu og hjónunum Balduin og Gunnhildi Ryel.  Fimmti fundur starfsársins er svo aðalfundurinn, sem að þessu sinni er haldinn í Hrísey þann 17. maí. Dagskrá hans er hefðbundin. Skýrsla fráfarandi stjórnar (formanns og gjaldkera), kosin þriggja manna stjórn sem skiptir með sér verkum, ákvörðun fundardaga næsta starfsárs, ákvörðun árgjalda og önnur mál.  Formlegir stjórnarfundir hafa verið fyrir félagsfundina, en einnig hefur stjórnin haft samskipti í gegnum síma og tölvupóst. Auk þess voru haldnir nokkrir fundir til undirbúnings Stoðdagsins 2007. Þá mættu félagar á undirbúningsfund vegna sumardagsins fyrsta.       

ÖNNUR STARFSEMI.

 Halla K. Sigurðardóttir flutti erindi um vinnuhjúaskildaga við opnun safnsins í Laufási sunnudaginn 13. maí, ásamt Ingibjörgu Siglaugsdóttur.  Þorsteinn Þorsteinsson var með leiðsögn um Hrísey í júlí. Björg Guðjónsdóttir aðstoðaði við Draugagönguna á Akureyrarvöku 25. ágúst.  Stoðdagurinn 1. vetrardag, 27. október, var helgaður tveimur listrænum Kjarna-konum úr Innbænum, þeim Elísabetu Geirmundsdóttur listakonu og Ragnheiði O. Björnsson kaupkonu. Sett var upp sýning á verkum þeirra og munum úr eigu þeirra í anddyri Amtsbókasafnsins, sem var opin frá 24. október til 7. nóvember. Ingólfur Ármannsson og Valgerður Jónsdóttir fjölluðu um Elísabetu og jafnframt voru flutt 2 lög hennar og ljóð í flutningi Bjargar Þórhallsdóttur af geisladiski. Um Ragnheiði fjölluðu Hallgrímur Gíslason, Halla K. Sigurðardóttir og Þór Sigurðarson, sem einnig las hluta úr minningum sem Sigrún Björnsdóttir, bróðurdóttir Ragnheiðar, hafði sent okkur. Leikið var brot úr útvarpsviðtali við Ragnheiði, þar sem hún lék jafnframt á píanó. Ingólfur og Valgerður endurfluttu erindi sín um Elísabetu í Seli á FSA í nóvember og Margrét Þóra Þórsdóttir, blaðamaður og nemi í Hagnýtri menningar-miðlun við H.Í., nýtti fyrirlestrana til að skrifa greinar um kjarnakonurnar, sem birtust í Vikudegi 3. janúar 2008.  Stjórn Minjasafnsins bauð félögum í Stoð á aðventutónleika með Garðari Þór Cortez í íþróttahöllinni 8. desember og á jólahlaðborð í Zontahúsinu á eftir og var það hvorutveggja vel sótt.  Á sumardaginn fyrsta var fjölbreytt dagskrá inni og úti á safnasvæðinu að venju. Auglýsingaborðinn var settur upp og myndir nýttar til að kynna staðsetningu atburða. Mikill munur var að fá 6 félaga frá St. Georgsgildinu Kvisti til að aðstoða okkur og er vilji hjá þeim að aðstoða okkur einnig að ári. 8 Stoðfélagar tóku þátt í verkefninu. Auk þess tóku Guðrún og Haraldur Egilsson hjá Minjasafninu fullan þátt í dagskránni og Kristín Sóley annaðist myndatöku. Gústaf Njálsson maður Höllu veitti okkur drjúga aðstoð sem fyrr. Valgerður sá um fræðslu um sumardaginn fyrsta í kirkjunni, þar var líka fjöldasöngur við orgelundirleik. 720 lummur gengu út að mestu leyti. 2 laganir af kakói dugðu ekki alveg. Teymt var undir börnum í garðinum. Leikir voru á flötinni neðan við götuna og voru pokahlaup og reiptog vinsælustu leikirnir. Útibúið var í brekkunni ofan við Nonnahús því ekki reyndist unnt að hafa það sunnan við húsið vegna bleytu. Áhersla var lögð á að gestirnir tækju þátt í búskapnum og reyndist það vel. Einnig var boðið upp á sumarföndur, húlahringi, sippubönd, parís og sápukúlublástur. Talið er að á sjötta hundrað manns hafi mætt á hátíðina.  Skráðir félagar voru 11 í upphafi starfsárs, þar af 2 aukafélagar. 3 nýir félagar gengu inn á starfsárinu og var mikils virði að fá þar 3 öfluga liðsmenn.  Starfsemin hefur verið býsna mikil á árinu og færir stjórnin félögunum og öðrum sem hafa veitt okkur aðstoð kærar þakkir fyrir frábært samstarf.                                                            

Akureyri  í maí 2008
F.h. stjórnar STOÐAR.    

                                                        Hallgrímur Gíslason.