Er einhver ástæða til annars en fagna komu vetrarins? Vetur konungur verður boðinn velkominn á Minjasafninu á Akureyri laugardaginn 25. október.

Viltu gera þitt eigið skrímsli  á skrímslagerðarstofunni. Þar verða búin til sjávarskrímsli eða önnur kvikyndi líkt og sjá má á mörgum kortum sýningarinnar Land fyrir stafni. Býr einhver til mannætu humar eins og á Íslandskortinu frá 1576 eða hrosshvalinn sem olli sjófarendum miklum skaða. Þetta stórhættulega skrímsli verður einmitt komið fyrir á sýningunni en það náðist í gildru í byrjun vikunnar.

Viltu kannski frekar skoða sýningarnar með kíki, korti og kompás. Þá er upplagt að gerast  landkönnuður og taka þátt í ratleiknum. Þú getur líka slegist með í leiðangur um sýninguna þar sem margt dularfullt ber fyrir augu.

Í ljósmyndastofu safnsins gefst tækifæri til að ná jólakortamynd fjölskyldunnar í skemmtilegum búning. Stofan er hluti ljósmyndasýningarinnar Með augum fortíðar.  Þar gefur að líta verk Harðar Geirssonar sem tekur ljósmyndir með tækni og tækjum 19. aldar, sem hann smíðar sjálfur. Sjón er sögu ríkari en þó ekki því Hörður ætlar að leiða gesti í gegnum leyndardóma ljósmyndanna.

Kaupmaðurinn verður á bakvið búðarborðið í sýningunni Akureyri bærinn við Pollinn og gefur kramarhús með góðgæti. Þar verður einnig lesið upp úr ferðasögum erlendra ferðamanna fyrri alda, sem oft drógu upp sérkennilega mynd af land og lýð. Eða var auga gestins svona glöggt? Alla vegar verður þar að finna ýmislegt um hjátrú sem tengd er vetrinum.

 Allt hefst þetta kl. 14 með ljúfum tónum Unu og Eikar.

Leiðsögn, ljúfir tónar, ljómandi laugardagsnammi og skemmtileg skrímsli en umfram allt engin leiðindi. Vetur konungur er mættur á Minjasafnið á Akureyri! Verið velkomin – enginn aðgangseyrir.

Starfsfólk og Stoðvinir Minjasafnsins á Akureyri