Sunnudaginn 18. ágúst verða „Töðugjöld“ í Laufási og hefst dagskráin í Laufáskirkju kl. 13.30 þar sem hlýða má á ýmsan fróðleik um hversu mikilvægur heyskapurinn var fyrir menn og skepnur. Söngglaðir sveitungar taka lagið undir stjórn Petru Bjarkar Pálsdóttur ásamt húskarlinum og einsöngvaranum Þorkeli Pálssyni frá Höfða í Grenivíkurhreppi. Í Gamla bænum verður handverksfólk að störfum og ljósmyndasýning um „þarfasta þjóninn“, sem var eins og viðurnefnið bendir  til ómissandi starfskraftur við bústörfin. Það verður þó ekki aðeins hægt að skoða hestana af myndum heldur verða hestar á hlaðinu og börnum boðið á bak.  Farið verður í allskonar skemmtilega gamaldags leiki með börnum á öllum aldri úti á hlaði. Þegar síðasta tuggan hefur verið tekin saman af túninu, verður ýmislegt góðgæti að smakka úr trogunum og borðin svigna undan meðlæti og uppáhellingu í Kaffi Laufási. Dagskráin stendur frá kl. 13:30 til 17 og eru allir hjartanlega velkomnir.