Davíðshús, Bjarkarstíg 6 - kl. 19 Komdu - 100 ára skáldafmæli Davíðs Stefánssonar frá FagraskógiSigurhæðir - Í brekkunni neðan við Akureyrarkirkju - kl. 21 Vandræði á Sigurhæðum - Vandræðaskáld fjalla um Matthías í sögum og lögumNonnahús, Aðalstræti 54 - kl. 22:30Á Nonnaslóð á Jónsmessu Nánari upplýsingar: 

Davíðshús, Bjarkarstíg 6 - kl. 19 
Komdu - 100 ára skáldafmæli Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi

Í þessari afmælisdagskrá leiðir Valgerður H. Bjarnadóttir, húsfreyja í Davíðshúsi, gesti á fund skáldsins unga, stiklar á stóru í bernskusögu hans, hugleiðir hvernig skáldið varð til og les nokkur af fyrstu ljóðunum. 

21. janúar 1916 var Davíð Stefánsson staddur í Kaupmannahöfn og hélt upp á 21 árs afmæli sitt með félaga sínum og afmælisbróður, Birni O. Björnssyni. Þeir voru báðir félagar í Boðn, bræðralagi ungskálda. Boðnarbræður voru í afmælisveislunni, auk fleiri vina, og Björn, sem vildi koma þessum bróður á framfæri, hafði einnig boðið þangað Sigurði Nordal sem þá var kominn til nokkurra metorða í bókmenntaheiminum. Í veislunni las Davíð m.a. lítið ljóð um ástir og þjáningu, ort í orðastað konu. Hann kallaði ljóðið Komdu. Sigurður heillaðist. Erindið sem snerti hann dýpst var þetta: 
"Ekki skal það kvelja þig 
skóhljóðið mitt,
ég skal ganga berfætt 
um blessað húsið þitt." 

Bókmenntafræðingurinn stóð upp að lestri loknum og las upp dómsorðið: "Þessi maður er skáld!" Í kjölfarið birtust sjö af ljóðum Davíðs í tímaritunum Eimreiðinni og Iðunni, fyrir milligöngu Sigurðar, og þau slógu í gegn. Davíð Stefánsson var orðinn skáld. 

***
Sigurhæðir - Í brekkunni neðan við Akureyrarkirkju - kl. 21 
Vandræði á Sigurhæðum
Vandræðaskáld fjalla um Matthías í sögum og lögum

Vandræðaskáldin Sesselía og Vilhjálmur munu flytja dagskrá í Sigurhæðum um þjóðskáldið Matthías Jochumsson. Þau munu segja sögur af skáldinu, fyndnar og sorglegar, lesa ljóð eftir hann og syngja frumsamin lög við ljóð hans. 

Vandræðaskáld sýndu meðal annars revíuna Útför - saga ambáttar og skattsvikara, við góðar undirtektir bæði hér á Akureyri og víðs vegar um landið. Sesselía er lærð leikkona og leikstjóri og Vilhjálmur er leikskáld og rithöfundur.

***
Nonnahús, Aðalstræti 54 - kl. 22:30
Á Nonnaslóð á Jónsmessu

Hefur þú séð Nonnasteininn? Hefur þú gengið í fótspor hins ástsæla barnabókarithöfundar og Jesúítaprestsins Nonna? Ef ekki þá er tilvalið fyrir alla fjölskylduna að gera sér glaðan dag og ganga í fylgd kunnugra um Nonnaslóð í tilefni Jónsmessu fimmtudaginn 23. Júní. Gangan hefst við Nonnahús kl. 22:30 og er gengið upp á Naustahöfðann.

Haraldur Þór Egilsson, sagnfræðingur og safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri, leiðir gönguna sem tekur rúmlega klukkustund og er þátttakendum að kostnaðarlausu. Þetta er létt og þægileg ganga þar sem farið verður stuttlega yfir lífshlaup Nonna, lesið upp úr bókum hans og staðir skoðaðir sem tengjast lífi hans og sögum.

Verið velkomin!

Myndin sem hér fylgir með er eftir írska 19. aldar málarann Frances Danby og sýnir Draum á Jónsmessunótt.