Dagskrá Barnamenningarhátíðar á Minjasafninu
Dagskrá Barnamenningarhátíðar á Minjasafninu

Ertu skrímslabani og snjall stjórnandi seglskútu? Kannski sjóræningi? Komdu og prófaðu Islandia – leikjaborðið í sýningunni Land fyrir stafni – Schulte kortasafnið á Minjasafninu á Akureyri. 

Islandia er módel af korti Guðbrands biskups frá 16. öld sem margir kannast við. Á því spretta fram skrímsli og ýmsar hættur sem sjófarendur þurftu að glíma við. Þórarinn Blöndal, listamaður, hannaði og gerði leikjaborðið. 

Fjölskylduleiðsögn um sýninguna kl. 13:30
Opnun á Islandia kl. 14.
Aðgangur ókeypis - páskalegar veitingar

Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir leiðir myndasögusmiðjuna. Lóa er myndlistarkona, teiknari, myndskreytir og myndasöguhöfundur. Hún hefur gefið út fjölmargar myndasögur og haldið samskonar námskeið víða fyrir 6-69 ára. Já og svo er Lóa líka söngkona hljómsveitarinnar FM Belfast.

Lóa lauk námi úr myndlistadeild Listaháskóla Íslands og lærði myndskreytingar í Parsons í New York. Hún hefur sent frá sér bækurnar Lóaboratoríum, Alhæft um þjóðir og Nýjar rannsóknir hafa mögulega leitt eitthvað í ljós og birt myndasögur í ýmsum ritum nú síðast í breska blaðinu The Guardian. Þá teiknaði hún hluta teiknimyndaseríunnar Hulli, sem sýnd var á RÚV.

Myndasögusmiðjan er hluti Barnamenningarhátíðar á Akureyri sem haldin er í annað sinn í ár. Hátíðin mun standa 9.-14. apríl. Hægt verður að nálgast upplýsingar um viðburði á Facebook og á Instagram. Barnamenningarhátið er vettvangur fyrir menningu barna, með börnum og fyrir börn.

Aðgangur ókeypis á Minjasafnið og Nonnahús fyrir fullorðna í fylgd barna á Barnamenningarhátíð á Akureyri.