Þann 16. nóvember kemur út bókin Jónas Hallgrímsson Ævimynd, eftir Böðvar Guðmundsson skáld frá Kirkjubóli. Þann dag mun forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, afhenda nemendum 10 bekkjar í Þelamerkurskóla fyrstu eintökin. Menningarfélagið Hraun ehf hyggst gefa bókina öllum nemendum 10. bekkja í grunnskólum landsins.
Um hádegisbil þennan dag verður opnuð minningarstofa um Jónas Hallgrímsson á Hrauni í Öxnadal. Minningarstofan og fræðimannsíbúðin á Hrauni verða opin fyrir almenning laugardaginn 17. og sunnudaginn 18. nóvember kl. 13-18. Sömu daga verður hægt að fá kaffiveitingar á veitingahúsinu Halastjörnunni á Hálsi.
Í tilefni af opnun minningarstofunnar hefur Þjóðminjasafn Íslands lánað skrifborð úr eigu Jónasar Hallgrímssonar og líkan af húsi því sem Jónas bjó síðast í í Kaupmannahöfn. Kristín Jónsdóttir listakona frá Munkaþverá lánar kaffiketil úr búi Rannveigar Hallgrímsdóttur á Steinsstöðum, systur Jónasar.
Minjasafnið á Akureyri lánar skúfhólk úr eigu Rannveigar og ýmsa aðra gripi.
Náttúrufræðistofnun Íslands og Danmarks Geologiske institut lána 10 steinasýni sem Jónas safnaði á ferðum sínum um Ísland, merkti og sendi til Kaupmannahafnar.
Helgina 17-18 nóvember er því tækifæri til að sjá á Hrauni þá gripi sem Jónas sannarlega fór höndum um, eða voru fyrir á Steinsstaðaheimilinu þegar hann átti þar viðdvöl.
Í samstarfi við Akureyrarstofu er boðið til fyrirlestrar Helgu Kress prófessors, sem hún nefnir “Ég bið að heilsa: Landið, skáldskapurinn og konan í ljóðum Jónasar Hallgrímssonar”.
Allir eru velkomnir og aðgangur ókeypis.
Menningarfélagið Hraun í Öxnadal ehfstjórn þess skipa:
Tryggvi Gíslason magister, Jón Sólnes lögmaður og Guðrún M. Kristinsdóttir fornleifafræðingur.
Minjasafnið á Akureyri, Minjasafnskirkjan, Nonnahús og Iðnaðarsafnið - opið daglega kl. 13-16
Lokað aðfangadag, jóladag, gamlársdag og nýársdag
Opið fyrir skólahópa frá kl. 8:30
Gamli bærinn í Laufási, Davíðshús, Leikfangahúsið, Smámunasafnið - lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa