Frumdægur Akureyrar er samstarfsverkefni Fornleifafræðistofunnar ehf og Minjasafnsins á Akureyri. Í tengslum við verkefnið verða fornleifafræðingur og nemi á vegum Fornleifafræðistofunnar við rannsóknir í Innbænum á gömlu Akureyri 15.-16. ágúst n.k. Grafinn verður prufuskurður á grasbletti norðan við verslunina Brynju í þeim tilgangi að rannsaka mannvistarlög undir sverði sem tengst gætu gamla verslunarstaðnum sem stofnaður í kjölfar einokunarinnar árið 1602. Engin fornleifafræðileg rannsókn hefur farið fram á verslunarstaðnum og því áhugavert að sjá hvað jarðlögin hafa að geyma. Rannsóknin í sumar er fyrst og fremst hugsuð sem könnunarrannsókn og verður haldið áfram næsta sumar ef niðurstöður gefa tilefni til.