Um áratugaskeið voru safngripir skráðir í aðfangabók. Síðar var farið tekið upp þetta afsal með nákv…
Um áratugaskeið voru safngripir skráðir í aðfangabók. Síðar var farið tekið upp þetta afsal með nákvæmari skráningu.

Á Minjasafninu á Akureyri er mikill menningarsögulegur lager. Safnið varðveitir nú um stundir 35.018 gripi og 3.132.547 ljósmyndir sem hafa verið gefin safninu í gegnum tíðina. Án safngripa væri safnið ekki til því þeir eru grunnur að verkefnum starfsfólks safnsins t.d. þegar við gerum sýningar, veitum safnfræðslu, svörum fyrirspurnum, í rannsóknum eða til sköpunar.

Þessi stóri menningarsögulegi lager varð formlega til við stofnun Minjasafnsins á Akureyri 1962 en söfnunin hófst 12 árum fyrr af áhugahópi um stofnun safnsins. Aflvakinn var óttinn við að þekking og munir gamla sveitasamfélagsins væri að glatast í nútímanum. Safnkosturinn hefur vaxið með árunum en allir gripir sem við tökum á móti til varðveislu eru gjafir.

Lykillinn að öllu safnastarfi er góð skráning. Það að vita hvað er til, upplýsingar um það sem er varðveitt, hvað vantar og hvort það sé ekki í lagi með lagerinn. Svona eins og með vörulager, nema að menningarsögulager á að vera til um ótiltekinn tíma. Það er enginn dagsetning á safngrip sem segir að hann sé útrunninn. Það er því stærsta verkefni safnsins að skrá safngripi og búa þeim góð varðveisluskilyrði til framtíðar. Við erum nefnilega að fást við framtíðina þegar við höndlum með fortíðina.

Aðferðirnar við að skrá hafa þróast mikið í gegnum tíðina og eru núna gerðar af vísindalegri nákvæmni. Áratugum saman voru safngripir skráðir í aðfangabækur en síðustu áratugina á sérstök eyðublöð/afsöl sem síðan eru skráð í gagnagrunn. Í dag notum við gagnagrunninn Sarp sem er í raun rafræn aðfangabók með mun fleiri og nákvæmari upplýsingum en tíðkaðist að skrá fyrir um 60 árum. Það merkilega gerðist einmitt árið 2013 að aðfangabókin okkar, www.sarpur.is, varð öllum aðgengileg hvar og hvenær sem er. Þú getur því litið í aðfangabókina okkar og jafnvel veitt okkur aðstoð og sent inn nýjar og betri upplýsingar öllum til heilla. Tíminn sem fer í að skrá einn grip er meiri en halda mætti við fyrstu sýn, áætlað er að það taki að meðaltali um 45 mínútur að fullskrá einn grip með mynd. Hvernig getur staðið á því? Meira um það næst.

Starfsfólk safnsins sinnir þessum mikilvægu störfum með öðrum safnastörfum. Hörður Geirsson hefur séð um ljósmyndasafnið okkar um áratuga skeið, honum til aðstoðar er Anna Þórunn Hjálmarsdóttir sem er að hluta í skráningu ljósmynda. Ragna Gestsdóttir og Sveinn Stefánsson bera uppi munadeildina. Þá hefur safnið haft um árabil gott samstarf við Vinnumálastofnun, Fangelsismálastofnun og síðustu ár Virk endurhæfingu um starfsþjálfun og fengið vaskar hendur og huga til skemmri tíma.  

Þetta gerum við á safninu og meira til. En meira um fleira síðar.