Kjarnakonur úr Innbænum er yfirskrift dagskrár sem Stoðvinir Minjasafnsins á Akureyri standa fyrir fyrsta vetrardag, laugardaginn 27. október, kl 14 í Amtsbókasafninu á Akureyri.
Flutt verða stutt erindi um merkiskonurnar Elísabetu Geirmundsdóttur (1915-1959), listakonuna í Fjörunni og Ragnheiði O. Björnsson (1896-1987), kaupkonu.
Elísabet var fædd á Akureyri og var margt til lista lagt. Hún skar út í tré, málaði og teiknaði. Elísabet teiknaði íbúðarhús fjölskyldunnar í Aðalstræti 70 en þekktust er hún fyrir tréstyttur sínar. Hún var öðrum snjallari í skautadansi og átti það til að sýna skautadans á upplýstum Pollinum.
Ragnheiður stofnaði hannyrðaverslun 1937 sem hún rak allt til ársins 1972. Hún var mikill tónlistarunnandi, samdi lög og spilaði daglega á píanó fram á efri ár. Hún var mikill félagsmálafrömuður, stofnaði m.a. Zontaklúbb Akureyrar og var á meðal stofnenda Náttúrulækningafélags Norðurlands. Hún var einnig í Guðspekifélaginu og Sálarrannsóknarfélaginu að ógleymdu Heimilisiðnaðarfélagi Íslands, sem hún starfaði með í mörg ár.
Amtskaffi verður opið og gefst gestum kostur á að kaupa sér veitingar í hléi.Samhliða dagskránni stendur yfir sýning í Amtsbókasafninu með margvíslegum munum eftir þær kjarnakonur og sem voru í þeirra eigu. Sýningin er opin frá 24. október til 7. nóvember.
Aðgangur að dagskránni og sýningunni er ókeypis.
Minjasafnið á Akureyri, Minjasafnskirkjan og Nonnahús, Iðnaðarsafnið, Leikfangahúsið og Laufás
Davíðshús opið þriðjudaga-laugardaga 13-17
Smámunasafnið opið 18. júní til 17. ágúst miðvikudag-sunnudags frá 13-17 .
Opið fyrir skólahópa frá kl. 8:30