Í speglasal í Kaupmannahöfn 1916
Í speglasal í Kaupmannahöfn 1916
Síðastliðin tvö sumur hefur Davíðshús boðið upp á dagskrá um Davíð og verk hans á fimmtudögum.   Nú líður að hausti og á fimmtudaginn, 25. ágúst kl.16, verður lokadagskrá sumarsins í umsjón Valgerðar H. Bjarnadóttur.Dagskráin ber yfirskriftina KOMDU og þar verður þess minnst að 100 ár eru nú liðin frá því að fyrstu ljóð Davíðs Stefánssonar birtust á prenti. Það var í tímaritinu Eimreiðinni, sem gefin var út í Kaupmannahöfn. Ljóðin sem þar birtust voru Komdu, Brúðarskórnir, Allar vildu meyjarnar, Léttúðin og Hrafnamóðirin.  Fyrsta ljóðið, Komdu, lék þar örlagahlutverk. Það var fyrst flutt í góðra vina hópi í Kaupmannahöfn á 21 árs afmæli Davíðs 21. janúar 1916 og snerti svo sterkt hjartastreng eins áheyrandans að hann ákvað að þetta skáld skyldi hann styðja í að koma verkum sínum á framfæri. Og hann gerði það.Sá maður var Sigurður Nordal.  Á fimmtudaginn fer Valgerður H. Bjarnadóttir, húsfreyja í Davíðshúsi yfir þessa sögu, fyrstu ljóðin, stiklar á stóru um aðdragandann að þessum áfanga, og svo fylgir hún skáldinu skref fyrir skref í átt að fyrstu bókinni, Svörtum fjöðrum, sem kom út þrem árum síðar.Verið velkomin í Davíðshús að fagna með okkur!