Sýning á fágætum Íslandskortum frá 1547-1808.

Lengi vel þekktu erlendir kortagerðarmenn lítið til landsins, höfðu mögulega óljósar fregnir af því og færðu hringlaga eyju inn á Evrópukortið. Þegar framliðu stundir breyttist landið úr torkennilegri eldfjallaeyju með sjóskrímslum og furðuverum í kunnuglegt land með stórskorinni strönd. Kortin endurspegla aukna þekking Evrópubúa á umheiminum eftir því sem fram líður. Á kortunum fjölgar örnefnum og upplýsingum skráðum af vísindalegri nákvæmni, sem þó ber fagurfræði þeirra ekki ofurliði.

Kortin eru gjöf þýsku hjónanna dr. Karl-Werner Schulte og Giselu Schulte-Daxboek til íbúa Akureyrar. Þau hafa um áratuga skeið safnað kortum af Íslandi eða þar sem landið er hluti Evrópukorts. Schulte hjónin tóku ástfóstri við Ísland og Akureyri fyrir nokkrum árum og ákváðu að gefa þau Akureyrarbæ. Landakortin eru 76 talsins frá Ítalíu, Hollandi, Englandi, Frakklandi, Tékklandi, Austurríska keisaraveldinu og Þýskalandi. Hvert öðru sérkennilegra og sérstakara. Árlega er sett upp sýning úr safni Schulte hjónanna með hluta kortanna 76. Í ár verða 30 kort á sýningunni.

Það eru þó ekki aðeins kort sem ber fyrir augun. Þórarinn Blöndal hefur skapað nokkur sæskrímsli af kortunum sem eru til sýnis í rými kortagerðarmannsins. Þar gefur einnig að líta fágætt leikhús og ýmsa skrítna gripi og dót sem má prófa og leika með.