Fimmtudaginn 17. júlí standa Minjasafnið á Akureyri, Gásaverkefnið, AkureyrarAkademían og aðstandendur fornleifarannsókna í Hörgárdal (Fornleifastofnun Íslands og fornleifadeild CUNY NORSEC í New York) fyrir fornleifadagskrá á Gásum og í Hörgárdal. Dagskráin hefst kl. 20 þar sem veitt verður leiðsögn um Gásir og gestir fræddir um hvað uppgröfturinn þar hefur leitt í ljós.Eins og fram kemur á vef Gásakaupstaðar er fornleifauppgreftri lokið í bili en á árunum 2001-2006 stóðu Minjasafnið á Akureyri, Þjóðminjasafn Íslands og Fornleifastofnun Íslands fyrir fornleifarannsóknum á svæðinu þar sem opnaðir voru um 14F00 fermetrar. Þar hefur m.a. fundist eitt stærsta safn miðaldaleirkerjabrota á Íslandi.Að leiðsögn lokinni mun áhugasömum standa til boða að fara með rútu inn Hörgárdal, að Skugga í landi Staðartungu þar sem fornleifafræðingar eru nú við uppgröft og rannsóknir sem eru liður í verkefninu Bakland Gása. Verkefnið miðar að því að setja Gásir í stærra samhengi með því að skoða sveitina sem á sínum tíma studdi við og hagnaðist á verslun við Gásir.Rútuferðin frá Gásum inn Hörgárdal stendur gestum til boða þeim að kostnaðarlausu (meðan rúm leyfir), en gert er ráð fyrir að þeir komi sér sjálfir að Gásum. Jafnframt er bent á að til þess að komast að uppgreftrinum á Skugga þarf að ganga dálítinn spöl frá þjóðvegi upp grasi gróna hlíð og því er æskilegt að fólk sé vel skóað og klætt eftir veðri. Gera má ráð fyrir um 15 mín göngu og reiknað er með að koma aftur til baka um kl. 22.30.Dagskráin er liður í Miðaldadögum á Gásum sem verða haldnir 18.-20. júlí næstkomandi.