Í dag er dagur íslenskrar tungu 16. nóvember. Sá dagur er einnig fæðingadagur Jóns Sveinssonar, Nonna. Faðir hans Sveinn Þórarinsson lýsir deginum á Möðruvöllum svona í dagbók sinni: „Logn hlýindi og blíðviðri. Kl. hálf eitt í nótt vakti kona mín mig, þá orðin joðsjúk.“  Jón gamli húsmaður var í skyndi sendur af stað til að ná í yfirsetukonuna Ástu Daníelsdóttur að Hvammi. „Tók Ásta til starfa strax og fæddi kona mín eptir harða hríð sveinbarn kl. 4, og gekk fæðingin þannig að kalla má fljótt og vel, og sýnist ekki ætla að hafa nein bág eptirköst. Ég og hyski mitt allt vakti um nóttina og líka í dag. ... Frúin, Petrea, Þorgerður og annað kvenfólk hér kom smámsaman inn að „skoða barnið“ sem er vanalegt en mér öldungis óskiljanleg fýsn margs kvenfólks.“

 Fleiri áttu eftir að sýna Jóni Stefáni, Nonna, áhuga eftir því sem áratugir liðu því skáldsögur Nonna opnuðu ævintýraheim sem fangaði huga lesenda um allan heim. Það fæddist nefnilega skáld þennan blíðviðrisdag.

Leiðin að skáldinu var hins vegar löng og lág fjarri Íslandsströndum. Nonni hélt úr Eyjafirðinum 12 ára drengur til að svala þekkingarþrá sinni í skólum jesúíta. Íslenski drengurinn varð prestur í reglu jesúíta. Leiðin heim var hins vegar grýtt og einungis tvisvar kom hann heim, í bæði skipti sem gestur. Skáldaþráin og óuppgerð uppvaxtarár og þráðurinn heim til mömmu var hins vegar efniviður í að spinna sögur.

Árið 1913 kom fyrsta bókin út, Nonni. Henni var afar vel tekið og seldist í miklu upplagi. Það var ekki fyrr en 1922 að hún kom út á íslensku í þýðingu Freysteins Gunnarssonar. Bækurnar urðu 12 talsins og voru gefnar út í yfir 40 löndum á ýmsum evrópskum tungumálum en einnig kínversku, japönsku og esperantó. Bækurnar eru enn í dag gefnar út í Evrópu.

Nonni lét ekki staðar numið við ritvélina heldur ferðaðist víða og talaði fyrir fjölda fólks. Sjálfur taldi hann árið 1936 að fyrirlestrarnir væru 4515 talsins og átti eftir að fjölga. Í fyrirlestrum sínum fjallaði hann um Ísland, Eyjafjörð og Akureyri þangað sem hann flutti tæplega 6 ára gamall.  

Nonni lést í neðanjarðabyrgi undir sjúkrahúsi Fransiskussystra í Köln 16. október 1944. Á aldarafmæli Nonna þann 16. Nóvember 1957 opnaði Zontaklúbbur Akureyrar til minningar um hann íhúsinu þar sem Nonni bjó á mótunarárum sínum og nefnist húsið nú Nonnahús.

Gunnar F. Guðmundsson sem skrifaði ævisöguna, Pater Jón Sveinsson Nonni, kemst að kjarna mannsins í bók sinni:

„Jón Sveinsson lifði og hrærðist í bókum sínum, Nonnabókunum. En honum fannst hann jafnframt þurfa að fylgja sögum sínum eftir með því að ferðast um heiminn, hitta fólk og komast í lifandi samband við það. Þannig fékk einnig eirðarleysi hans „postullegan“ tilgang. Hann var heimsmaður án föðurlands, talaði mörg tungumál en sjaldnast sitt eigið móðurmál, rótslitinn einstæðingur með kjölfestu í voninni, alla sína ævi á leiðinni heim.“