Litla ljóðahátíðin 2023
Litla ljóðahátíðin 2023

Ljóðalestur, tónar og spjall fylla stofuna í Davíðshúsi á Litlu ljóðahátíðinni sem nú er haldin í þriðja sinn. Þátttakendur koma víða að. Flutt verða bæði útgefin og óútgefin ljóð. Þá fengu allir þátttakendur það verkefni að finna ljóð eftir Davíð Stefánsson sem þau tengja við, segja frá og flytja. Þannig verður gestgjafinn óbeinn þátttakandi í hátíðinni.

16. nóvember kl. 20

Tónlistarkonurnar Þórhildur Örvarsdóttir og Helga Kvam opna hátíðina með dagskrá í tónum og tali um álfa og tröll. Þórhildur og Helga eru flestum tónlistarunnendum á Akureyri að góðu kunnar og hafa unnið að fjölmörgum verkefnum saman þar sem þær taka fyrir tónlistar, bókmennta- og samfélagsleg viðfangsefni.

17. nóvember kl. 20

Brynja Hjálmsdóttir hlaut hvatningarverðlaun Vigdísar Finnbogadóttur og Ljóðstaf Jóns úr Vör árið 2022 fyrir ljóðið Þegar dagar aldrei dagar aldrei. Bókin Kona lítur við (2021) var tilnefnd til ljóðaverðlauna Maístjörnunnar. Þá var hlaut fyrsta bók hennar Okfruman (2019) Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana og var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna.

Kristján Hrafn Guðmundsson gefur út ljóðasöguna Vöggudýrabæ fyrir þessi jól, sem er skáldleg umfjöllun um konur sem nauðbeygðar sendu afkvæmi sín á vöggustofur og börn sem þar voru vistuð. Kristján hefur áður sent frá sér smásagnasafnið Þrír skilnaðir og jarðaför.

Sesselía Ólafsdóttir er núverandi bæjarlistarmaður Akureyrar og sannkallaður fjöllistamaður, leik- og tónlistarkona og hefur samið fjölmörg leikrit og ljóð. Bók hennar Leiðsla (2021) var gefin út í Pastel ritröð.

Þórarinn Hannesson hefur gefið út sjö ljóðabækur m.a. Nýr dagur, Um jólin, Listaverk í leiðinni og Enn fleiri æskumyndir. Þórarinn stofnaði og rekur Ljóðasetur Íslands á Siglufirði. Hann var bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2013.

 

18. nóvember kl. 14

Birna Stefánsdóttir er nýjasti handhafi verðlauna Tómasar Guðmundssonar fyrir sína fyrstu ljóðabók Örverpi.

Rakel Hinriksdóttir gaf nýverið út bókina Hringfari í Pastel ritröðinni sem kemur í kjölfar bókarinnar Andleg algebra.

Stefán Þór Sæmundsson er margreyndur rithöfundur og blaðmaður. Stefán hefur gefið út fjórar ljóðabækur nú síðast Upprisu, Mar og Ljóðin okkar Sillu. Hann heldur úti vefljóðasetrinu Ljóðadrangi.

Vilhjálmur B. Bragason, leikari, rithöfundur og tónlistarmaður semur jöfnum höndum hnyttna texta og ljóð. Ritsafn II: fyrsta bók höfundar kom út árið 2018 í Pastel ritröðinni.

Þórður Sævar Jónsson, rithöfundur og þýðandi, hlaut tilnefningu til Maístjörnunnar fyrir sína fyrstu ljóðabók í fullri lengd, Vellankötlu (2019) og gaf út vetrarbókina Brunagaddur árið 2021.

 

Aðgangseyrir er 1000 kr fyrir stakan viðburð en 1500 kr fyrir alla þrjá dagana. Þá gildir ársmiði Minjasafnsins á viðburðina sem eru styrktir af Uppbyggingarsjóði SSNE.