"Mánudagskvöldið 30. júní árið 1980 safnaðist talsverður mannfjöldi saman við Aragötu 2 í Reykjavík. Lúðrasveit var mætt á staðinn og spilaði ættjarðarlög.  Innan stundar opnuðust svaladyrnar og út stigu Vigdís Finnbogadóttir, nýkjörinn forseti Íslands, klædd í ullardressið fræga sem prjónað hafði verið á hana..."Þetta er upphaf á skemmtilegu ávarpi Kristínar Ástgeirsdóttur, forstýru Jafnréttisstofu við opnun sýningarinnar Ertu tilbúin, frú forseti? Ávarpið er að finna í heild hér að neðan.

 

Kæra Vigdís, fyrrverandi forseti Íslands, Ástríður. Góðir gestir.

 

Mánudagskvöldið 30. júní árið 1980 safnaðist talsverður mannfjöldi saman við Aragötu 2 í Reykjavík. Lúðrasveit var mætt á staðinn og spilaði ættjarðarlög.  Innan stundar opnuðust svaladyrnar og út stigu Vigdís Finnbogadóttir, nýkjörinn forseti Íslands, klædd í ullardressið fræga sem prjónað hafði verið á hana og Þór Magnússon þjóðminjavörður, einn dyggasti stuðningsmaður Vigdísar. Mannfjöldinn fagnaði en síðan ávarpaði Þór samkomuna. Hann sagði að nú hefði verið brotið blað í sögunni, Vigdís væri boðberi nýrra tíma og hún hefði sýnt að konur stæðu körlum ekki að baki þegar á reyndi. Hún væri fordæmi fyrir aðrar þjóðir enda kjörin forseti í lýðræðislegum kosningum fyrst kvenna. Vigdís tók til máls og sagði hjarta sitt fullt af þakklæti fyrir þann sóma sem sér væri sýndur og hún vitnaði í „Spámanninn“ eftir Kahil Gibran þar sem segir „Til eru þeir sem eiga lítið en gefa það allt. Þetta eru þeir sem trúa á lífið og nægtir lífsins og þeirra sjóður er aldrei tómur“. Orð sem margir mættu hafa í huga.

 

Þessi kvöldstund er þeim ógleymanleg sem þar voru en sú sem hér stendur var einmitt í hópnum, þá blaðamaður Þjóðviljans og skrifaði frétt um þennan viðburð sama kvöld. Hún endaði svona: „Eftir þessa stuttu en hátíðlegu athöfn tók fólk að tínast í burtu hægt og hægt, því bílalestin var löng og fólk rölti í hægðum sínum heim á leið á þessu fagra sumarkvöldi eftir sætan sigur.“ Þarna skrifaði rauðsokkan og stuðningskona Vigdísar.

 

Hálfum mánuði eftir kosningarnar hófst önnur kvennaráðstefna Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn og þar var Ísland sannarlega í sviðsljósinu eftir þessar tímamótakosningar. Þann 1. ágúst var svo komið að því að setja Vigdísi inn í embættið við hátíðlega athöfn. Það er merkilegt að skoða myndirnar frá embættistökunni. Vigdís sem klædd var í sægrænan síðan kjól var ein innan um alla karlana, ráðherra, þingmenn, dómara og erlenda sendimenn. Ef vel er að gáð sést glitta í Halldóru Eldjárn fyrrverandi forsetafrú. Konurnar þrjár sem þó sátu á þingi sjást ekki á myndunum.

 

Framboð Vigdísar átti sér aðdraganda og það var ýmislegt sagt í kosningabaráttunni sem forvitnilegt er að rifja upp. Um 1970 reis kvennahreyfingin upp að nýju eftir nokkurra áratuga lægð og krafðist sömu réttinda og tækifæra konum til handa og karlar höfðu. Kvennahreyfingin náði nýjum og óþekktum hæðum á kvennafrídaginn 24. október 1975 þegar konur um allt land lögðu niður vinnu til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna fyrir samfélagið. Það framlag var ekki, jafnvel alls ekki, metið sem skyldi. Þátttakan var gríðarleg og margar atvinnugreinar lömuðust. Karlar urðu að ganga í störf kvenna og taka börnin með sér í vinnuna sumir hverjir. Neyðarþjónusta, t.d. á sjúkrahúsum var rekin með algjörum lágmarksmannafla. Það varð mikil vitundarvakning og hefur Vigdís oft lýst því hve þessi viðburður átti ríkan þátt í að hún gaf á endanum kost á sér eftir mikinn þrýsting.

 

Þrír karlar voru í framboði 1980 og svo Vigdís fyrst kvenna. Mikil umræða varð um það hve nauðsynlegt væri að hjón sætu Bessastaði og gerði Vigdís létt grín að umræðunni, það væri eins og forsetafrúnni væri ætlað að vera að strauja skyrtur og vera sífellt að hella upp á kaffi eins og húsmóðir í sveit. Einn bréfritari skrifaði í eitt dagblaðanna: „Ef hér skipaði kona forsetaembættið og væri gift þá gengi hún fyrst fram á móti gestum. Hvar yrði þá bóndinn? Kannski sem vinnumaður einhversstaðar í verkum. Því kynni ég ekki.“

 

Þrátt fyrir slíka umræðu sigraði Vigdís og flutti til Bessastaða ásamt Ástríði dóttur sinni.

 

Næstu sextán árin gegndi Vigdís embætti forseta Íslands og það var mikið að gera. Kjör hennar vakti heimsathygli og henni var boðið í heimsókn allt frá Danaveldi til Kína. Það er óhætt að segja að Vigdís varð þekkt um allan heim.

 

Fyrsta opinbera heimsóknin var til Margrétar Þórhildar Danadrottningar þar sem þeim var boðið að sitja í eldlínu eða skothríð blaðamanna og svara spurningum þeirra. Íslenskur blaðamaður sem var ekki nógu vel að sér í dönsku misskildi orðið „krydsild“ og hélt að það þýddi kryddsíld. Eftir Danmerkurheimsóknina kallaði Stöð tvö áramótaþátt sinn Kryddsíldina.

 

Það gefst ekki tími hér til að fara yfir feril Vigdísar en hún tók á móti, Reagan og Gorbasjof á frægum fundi þeirra í Reykjavík 1986, vann með fjölda ríkisstjórna, lenti í klemmu þegar hún átti að skrifa undir lög sem bönnuðu verkfall flugfreyja akkúrat á kvennafrídaginn 1985. Þá var kvennaáratugi SÞ  að ljúka og í Reykjavík stóð yfir sýningin „Konan, vinnan, kjörin“. Þetta var því ekki góð staða en Vigdís skrifaði á endanum undir eftir að hafa tekið sér  umþóttunartíma. Hún var forseti þegar Vestfirðingar urðu fyrir miklum áföllum 1995 er snjóflóð féllu í Súðavík og á Flateyri með hörmulegum afleiðingum. Þá um sumarið var haldið upp á 50 ára afmæli lýðveldisins á Þingvöllum þar sem kóngafólk Norðurlandanna var meðal gesta. Vigdís sótti kvennaráðstefnu SÞ í Kína 1995 en í haust verða einmitt liðin 20 ár frá þeirri merku ráðstefnu. Það bar því margt til tíðinda á ferli Vigdísar Finnbogadóttur 1980-1996.

 

Í starfi sínu sem forseti lagði Vigdís áherslu á ákveðin mál. Í fyrsta lagi var það tungan og menningin eða mikilvægi þess að lítil þjóð með stóran og merkan arf standi vörð um þjóðararfinn. Í öðru lagi var það náttúra Íslands og það að græða landið að nýju eftir margra alda ofnýtingu og uppblástur. Í þriðja lagi voru það börnin eða áhersla á að ekkert er dýrmætara einni þjóð en að elska börnin sín, búa þeim gott atlæti og koma þeim til manns. Þetta sýndi Vigdís í verki með því að hafa nánast alltaf börn með sér þegar hún gróðursetti tré um land allt.

 

Auðvitað skipti miklu máli að Vigdís var kona og mér finnst í minningunni að eftir því sem leið á forsetaferilinn hafi hún lagt sífellt meiri áherslu á jafnrétti kynjanna, ekki síst að fá karla með í baráttuna og að fá þá til að skilja að kynjajafnrétti er þeim í hag ekki síður en konum. Eftir að hún kvaddi Bessastaði hefur hún verið mjög virk í vinnu við að bæta stöðu kvenna um allan heim, jafnframt því að vera sérstakur sendiherra SÞ í tungumálum.

 

Það sem er þó allra mikilvægast þegar horft er yfir 16 ára feril Vigdísar á forsetastóli er að hún var fyrirmynd fyrir bæði stúlkur og drengi. Heil kynslóð ólst upp við það að kona var æðsti embættismaður landsins. Í fyrra var ég á fundi í New York þar sem tvær fremur ungar athafnakonur lýstu því hve mikil áhrif það hefði haft á þær að alast upp með konu sem forseta. Fyrirmyndir skipta svo sannarlega máli.

 

Kæra Vigdís, góðir gestir.

 

Í ár er þess minnst að 100 ár eru liðin frá því að íslenskar konur 40 ára og eldri fengu kosningarétt til Alþingis. Þessi sýning kemur því á hárréttum tíma, því hún minnir á þann atburð þegar kosningarétturinn var nýttur til að brjóta blað í sögu kvenna og sögu landsins. Það er mikill fengur að þeirri sýningu sem hér gefur að líta. Fötin skapa manninn segir máltækið. Ekki veit ég hvort það er nú alveg rétt en þau hafa vissulega áhrif. Þau segja sína sögu um tísku og tíðaranda, allt frá íslensku prjónadragtinni, til axlapúðanna fyrirferðarmiklu á níunda áratugnum og svo auðvitað síðkjólarnir.

 

Kæra Vigdís. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka þér framlag þitt til Íslandssögunnar, ekki síst kvennabaráttunnar, uppgræðslu landsins, virðingar við íslenska náttúru og fyrir börnin sem svo oft stóðu þér við hlið og voru þátttakendur. Megir þú lengi enn halda starfi þínu áfram í þágu tungumálanna, náttúrunnar, menningarinnar og betra og jafnara samfélags.

 

Góðir gestir, njótið vel.