Eyjafjarðarsveit og Minjasafnið á Akureyri hafa gert með sér samning um rekstur Smámunasafnsins út árið. Smámunasafnið verður opið í sumar frá 22. júní til 20. ágúst frá miðvikudegi til sunnudags klukkan 13-17.

Mikill áhugi var í samfélaginu um að hafa Smámunasafnið áfram opið og vonar Haraldur Þór safnstjóri minjasafnsins að áhuginn hafi ekki dvínað. „Við hlökkum til að taka á móti gestum í sumar. Vonandi eru líka einhverjir sem lýstu miklum velvilja til safnsins til í að aðstoða við að halda því opnu í sumar“ segir Haraldur. Sigríður Rósa, verður í brúnni í sumar en nú vantar fólk í afleysingu með Siggu, segir Haraldur.

Eyjafjarðarsveit auglýsti eftir áhugasömum rekstraraðilum og lýstu margir yfir áhuga sínum án þess að hann raungerðist í sumar. Minjasafnið hjálpar því Eyjafjarðarsveit í sumar að halda safninu opnu. „Í umræðunni um Smámunasafnið komu upp margar góðar hugmyndir og við ætlum að grípa amk. eina þeirra í sumar. Til stendur að halda sýningar í suðursal Smámunasafnsins og heldur Samúel Jóhannsson, myndlistarmaður úr Eyjafjarðarsveit, fyrstu sýninguna. “Í haust verður Minjasafnið með sýningu á ljósmyndum og gripum sem safnið varðveitir en eiga uppruna sinn í Eyjafjarðarsveit, að sögn Haraldar. Þetta gerum við í góðu samkomulagi við núverandi húseigendur.

Við horfum svo sannarlega björtum augum fram á sumarið, segir Haraldur.

Sverrir Hermannsson gaf Eyjafjarðarsveit safn sitt árið 2003 með því skilyrði að undir það fengist rúmgott húsnæði. Hann hafði áður haldið sínum safngripum til haga við heimili sitt í Aðalstræti 38 á Akureyri, en Sverrir var Innbæingur, fæddur árið 1928. Hann lést sumarið 2008.  Sverrir var húsasmíðameistari að mennt og sérhæfði sig í að gera upp gömul hús. Fékk hann margvíslegar viðurkenningar fyrir ómetanleg störf sín á því sviði.  Hann fór meðal annars höndum um mörgu af elstu og sögufrægustu húsum á Akureyri, auk þess að tak aþátt í endurgerð og viðhaldi kirkna í Eyjafirði. Sverrir átti tengingu við gamla Saurbæjarhreppi þar sem Sólgarður er, en hann var þar vinnumaður ungur að árum.

Sólgarður er elsta samkomuhús Eyjafjarðarsveitar. Rétt ofan við það stendur Saurbæjarkirkja. Gera má ráð fyrir að fjöldi manns heimsæki staðinn í sumar, því nýja kennileiti Eyjafjarðarsveitar, Kýrin Edda, listaverk eftir Beate Stormo verður staðsett þar. Þá verður bryddað upp á þeirri nýjung að bjóða upp á myndlistarsýningar og verður Samúel Jóhannsson með sýninguna í sumar. Í haust verður Minjasafnið með sýningu á ljósmyndum og gripum sem safnið varðveitir en eiga uppruna sinn í Eyjafjarðarsveit. „Það verður kaffisala nú sem áður enda löng hefð fyrir bíltúr fram í sveit til að fá sér kaffi og um að gera að skoða safnið og kúna í leiðinni“ segir Haraldur

Gripirnir sem smiðurinn, völundurinn, Sverrir Hermannsson, eru af ýmsum toga, verkfæri, notaðir blýantar, grammófónnálar, heimilistæki, … „Smámunasafnið er ekki eiginlegt minjasafn“ segir Haraldur.  „Það má segja að það sé nær því að vera listsýning sem gerð er úr fjölbreytileika þeirra muna sem umlykja okkur án þess að við tökum endilega eftir því.“ Sjón er því söguríkari og ástæða til að gera sér ferð fram í Sólgarð á Smámunasafn Sverris.