Safnasvæðið í Innbænum
Safnasvæðið í Innbænum

Nýverið var úthlutað styrkjum úr Safnasjóði, en það er mennta- og menningarmálaráðherra sem úthlutar þeim að fengnum tillögum Safnaráðs. Minjasafninu á Akureyri voru veittar 15 milljónir króna til ýmissa verkefna, þar á meðal öndvegisstyrk til þriggja ára.

Þetta er í fyrsta skipti sem öndvegisstyrkjum er úthlutað úr Safnasjóði og er það mikil viðurkenning á öflugu starfi Minjasafnsins að hljóta slíkan styrk. Verkefnið felst í að auka skráningu ljósmynda og gripa safnsins og bæta gæði eldri skráninga. Af nægu er að taka enda býr safnið yfir rúmum þremur milljónum ljósmynda og um 36.000 gripum. Það er því ekki að ástæðulausu að heiti öndvegisverkefnisins er Hvernig borðar maður fíl?  Verkefnið hlaut 9 milljónir króna sem skiptast á þrjú ár..

Þá fékk safnið sex milljónir í verkefnastyrki til eins árs sem eru ekki síður mikilvægir en þeir eru:

Skráning Smámunasafnsins – samstarfsverkefni með Eyjafjarðarsveit um skráningu gripa Smámunarsafns Sverris Hermannssonar.

Líf og leikir barna – safnfræðsla í Leikfangahúsinu á Akureyri og tenging við safnfræðslu Minjasafnsins.

Land fyrir stafni - útgáfa og miðlun á einstöku safni Íslandskorta – Schulte.

Ég heiti Jón en kallaðu mig Nonna –  gerð nýrrar sýningar í Nonnahúsi.

Starfsfólk, stjórn og eigendur Minjasafnsins á Akureyri þakka kærlega fyrir styrkina og viðurkenninguna sem í þeim felst.