Úr fórum Minjasafnsins á Akureyri
Úr fórum Minjasafnsins á Akureyri

Komdu í heimsókn á Minjasafnið á Akureyri föstudaginn 21. september milli 16 og 19 með þjóðbúninga eða búningahluta til skoðunar og mátunar. Sérfræðingar í þjóðbúningasaumi og búningasilfri verða á staðnum til ráðgjafar og ráðleggingar. 

Oddný Kristjánsdóttir, klæðskeri og kennari í þjóðbúningagerð, ásamt Júlíu Þrastardóttur gullsmið, veita ráðgjöf og upplýsingar um þjóðbúninga og búningasilfur.

Út úr skápnum - þjóðbúningana í brúk! er yfirskrift verkefnis sem Heimilisiðnaðarfélagið stendur fyrir í tilefni af 100 ára afmæli fullveldisins. Markmiðið er að hvetja landsmenn til að draga fram þjóðbúninga sem víða leynast í skápum. Sérstaklega er hvatt til þess að ungar konur klæðist búningum formæðra sinna, með því flyst sá menningararfur sem felst í þjóðbúningum á milli kynslóða.

Minjasafnið á Akureyri í samstarfi við Heimilisiðnaðarfélagið og Þjóðháttafélagið Handraðinn stendur fyrir viðburðinum.

Aðgangur ókeypis – Allir velkomnir.