Sumir eiga sorgir og sumir eiga þrá. Ástin og sorgin í ljóðum Davíðs er yfirskrift næstu fimmtudagsstundar í Davíðshúsi. Sumarstundirnar í Davíðshúsi hafa verið vel sóttar og er takmarkaður sætafjöldi. Viðburðurinn er innifalinn í 1200 kr aðgangsgjaldi að safnin sem og ársmiða og dagðpassa.

Dagskrá í Davíðshúsi - Fimmtudagur 23. júlí kl. 15

Sumir eiga sorgir og sumir eiga þrá

- ástin og sorgin í ljóðum Davíðs

Tilfinningaþrunginn og ljóðrænan í hinu sársaukafulla og viðkvæma í kvæðum Davíðs áttu án efa sinn þátt í vinsældum þeirra. Jafnvel hinir hörðustu hlutu að komast við og finna samhljóm í hjarta sínu.  Það var ekki tilviljun að upphafsljóð Svartra fjaðra 1919 var Mamma ætlar að sofna. Margir höfðu orð á því hversu sterk áhrif það vakti.

 

Mamma ætlar að sofna.

Mamma er svo þreytt

- Og sumir eiga sorgir,

sem svefninn getur eytt.

 

Sumir eiga sorgir,

og sumir eiga þrá,

sem aðeins í draumheimum

uppfyllast má.

 

 

Davíð var tilfinninganæmur og stundum varð þjáningin honum óbærileg. Þannig vildi hann þó vera og segir í bréfi 1920: "járnkarl get ég ekki orðið og vil ekki verða; ég vil heldur verða sleginn en slá."  Þegar hann fjallar um sorgina, sársaukann og ástina, gefur hann gjarna konunni í sér orðið. Sigurður Nordal var einn þeirra sem snemma sá hvað í skáldinu bjó og hann hreifst af þessu 1916:

Ekki skal það kvelja þig

skóhljóðið mitt;

ég skal ganga berfætt

um blessað húsið þitt.

 

Um ljóðræna sorgina, þjáninguna og ástina sem fylgdu Davíð alla tíð, fjöllum við í fimmtudagsstundinni 23. júlí.    

 

Umsjón með dagskránni hefur Valgerður H. Bjarnadóttir,  húsfreyja í Davíðshúsi. 

Húsið er opið frá kl. 13 til 17 og tilvalið að nýta tækifærið til að skoða heimili Davíðs og drekka í sig fegurðina sem þar býr. 

 

Næstu viðburðir:

v  Fimmtudagur 30. júlí

"Hálf ertu heilagur andi, hálf ertu mold" - mótsögnin í ljóðum Davíðs

 

v  Fimmtudagur 6. ágúst

"Við erum sungnar í sekt og bann" - Rödd konunnar í ljóðum Davíðs


Aðgangseyrir kr. 1.200.-    Sjá nánar á www.minjasafnid.is 

Viðburðir í Davíðshúsi 2015 eru hluti af Listasumri á Akureyri www.listasumar.is