h1285_400

„Lestin ríður þann 11. júlí 1887 hjá Oddeyri áfram mjóa troðninginn undir brekkunni að gömlu Akureyri - húsaþyrpingu neðan við Búðargil. Kalt er þótt hásumar sé því norðanvindur næðir um allt nema gjörþæfð plögg.  Matthías og fjölskylda hafa engu að síður meðbyr innra sem ytra og taka stefnuna að Laxdalshúsi fremst á eyrinni. Þar undir öldnu reynitré ná skagfirskir hestar og fjórtán mannverur hvíld stutta stund.
Skömmu síðar gengur Eggert Laxdal kaupmaður með þeim suður Fjöru að sýna þeim húsið þeirra reisulegt og hvítmálað, sem Akureyringar munu nú fara að kalla prestshús í stað prentsmiðju. Í góðri trú bera þau hafurtask sem tengir hið gamla því nýja af hestum í hús. Vindurinn blés þeim hingað eins og hann væri að koma þeim heim ... hér á Matthías líka eftir að eldast vel, ná sátt og virðingu og hafa kjark til að halda fram sínum skoðunum.“
 
h2356_400

Þannig lýsir Þórunn Valdimarsdóttir, sagnfræðingur og rithöfundur, komu séra Matthíasar og fjölskyldu hingað til Akureyrar. En hvernig leit Akureyri út um það leiti sem séra Matthías kemur hingað? Byggðin náði nánast fram í fjöruna og við sum húsin þurfti jafnvel að sæta sjávarföllum, til að komast leiðar sinnar. Flestir íbúarnir höfðu einhvern búskap, oft bæði eina til tvær kýr og nokkrar kindur í bakhúsum. Allt vatn þurfti að sækja í brunna. Og gamli brunnurinn hjá prestshúsinu hefur verið varðveittur og lagfærður, þannig að við getum ennþá skoðað hann rétt norðan við Aðalstræti 50. Í gögnum um veðurfar kemur fram að árið áður en fjölskyldan kom til Akureyrar hafði verið óvenju kalt, meðalhiti í júlí um 8 gráður og í janúar var meðalhitinn mínus 9 gráður. Til samanburðar var meðalhiti um miðbik 20. aldar um 11 gráður í júlí og um 2ja gráðu frost í janúar. En þó að fyrsta ár Matthíasar hér á Akureyri væri kaldranalegt og að hluta kveikjan að kvæði hans um „landsins forna fjanda“ þá var tíðarfarið fremur gott árin á eftir eða mestan hluta þess tíma sem hann bjó í Fjörunni. Og það var fleira en tíðarfarið sem var hagstætt í lok 19. aldar. Þannig varð veruleg fjölgun íbúa á Akureyri á þessu tímabili eða frá tæplega 600 íbúum um 1887 og upp í um 1.370 íbúa aldamótaárið 1900. Hefur þar eflaust komið til að bæði væru þarna fjölbreyttari  atvinnumöguleikar en í sveitunum og ekki síður sú þjónusta sem þar var í boði, bæði sjúkrahús, barnaskóli og ýmiskonar menningar- og félagsstarf. Þetta kemur meðal annars fram í bréfi frá Matthíasi til vinkonu sinnar Herdísar Benedictsen, sem hann sendir henni um það leiti sem hann er að flytja til Akureyrar:

„Ég má til með að vera nær andlegri umgengni, Interesser og Selskabelighed; ég þoli ekki að vera innan um sult og sálarleysi; ég er planta sem deyr án sólskins og sumarfugla.“

gook069_400 Það var ekki að ástæðulausu að Matthías greip þarna m.a. til dönskunnar, en á þessum tíma var gjarnan talað um að Akureyri væri mjög danskur bær og þar væri þess vegna oftast töluð danska á sunnudögum. Það má eflaust til sanns vegar færa, því að ekki er ólíklegt að kaupmennirnir og sumir embættismennirnir sem hér bjuggu og voru af dönskum ættum hafi gjarnan hist á frídögunum yfir veitingum og rætt saman á móðurmáli sínu, dönskunni.

Og hvað með kirkjurnar hér á Akureyri, sem Matthías ætlaði að fara að þjóna? Akureyrarkirkja, sem staðsett var rétt sunnan við heimili Matthíasar hafði þá verið í notkun í 24 ár og samkvæmt lögum frá 1884 um skipan prestakalla átti presturinn á Akureyri einnig að þjóna Lögmannshlíðarkirkju.Á þessum tímum voru kirkjubyggingar yfirleitt óeinangraðar og óupphitaðar. Má því ljóst vera að oft hafi kirkjugestir setið loppnir og rauðnefjaðir undir messugjörðum. Það var ekki fyrr en eftir að séra Matthías hætti prestskap að keyptur var ofn í Akureyrarkirkju.Lárus Rist lýsir því í minningum sínum hve kalt var eitt sinn í Lögmannshlíðarkirkju á föstudaginn langa.

„Fólkið sat þar inni með freðna skó, dúðað eins og ullarbögglar. Kvenfólkið er svo rækilega vafið í sjöl og klúta upp fyrir eyru, að nefbroddurinn einn stendur út eins og goggur á unga út úr skurni! Messugjörðinni hraðar Matthías sem unnt er, það sem hann talar gerir hann hátt og snjallt um alla heima og geima.“

Þegar Akureyrarkirkja var vígð 1863 var hún með turni á ausurgafli. Nokkur styrr varð um þessa staðsetningu á turninum og einnig kom í ljós að mjög erfiðlega gekk að gera við hvimleiðan leka í turninum. Það var síðan árið 1877 að ráðist var í breytingar á kirkjunni, þannig að turninn var rifinn og byggð forkirkja með turni við vesturgaflinn. Þannig leit því Akureyrarkirkja út, þegar Matthías fluttist í bæinn.Það sem blasti við fjölskyldunni þegar hún fór að skoða sig um á þessum nýja stað voru m.a. falleg timburhús, tjörguð, gul, hvít eða grámáluð. Hér er bakarí og verslun. Konur sækja vatn í brunna. Við strandlengjuna sem myndar byggðina í Fjörunni eru margir brunnar. Eftir að vatnið hefur verið notað í húsunum þarf að koma því áfram út í fjöru. Þangað er allt þvottavatn losað, sem og úr náttgögnum og útikömrum. Þar myndast því oft sérstæður daunn þegar veður er kyrrt. En Matthías hefur ekki dvalið lengi í Fjörunni, þegar hann finnur þörf hjá sér til að lýsa umhverfinu á nýja staðnum.                           

Þú átt flest, sem friðinn boðar,
fjarðar drottning mild og holl
vefur grænum fagurfaðmi
fiskiríkan silfur “poll”,
en í suðri Súlur háar 
sólargeislum prýða koll.

 

innbaer1900_400

En vitnum aftur í skrif Þórunnar Valdimarsdóttur:

„Nýkominn átti Matthías fáa vini í bænum. Hann sagði að skárra fólkið héldi flest saman: “þó mest par cliques”, en bærinn eigi “sár-fátt” menntafólk og “sár-fátækan” almúga.  Fyrstu árin fara Jochumsen-hjónin til Stephans Stephensen umboðsmanns, og Önnu “á vissum terminum og stundum óvissum” og þau hjón koma yfir til þeirra og eru þá “smá tyllidagar”“.  

En smám saman kynnist fjölskyldan öðrum íbúum og verður virkur þátttakandi í samfélaginu. En fjárhagur prestsins er þröngur og til að geta séð fyrir sinni stóru fjölskyldu leitar hann ýmsra leiða og meðal annars kennir hann fimm til sex stundir á dag, auk prest- og ritstarfanna. Brátt verður það eftirsóknarvert að fá séra Matthías í heimsókn, þegar blásið er til samkvæma af ýmsum tilefnum og alltaf mætir þá skáldið með afmæliskvæði eða hátíðarljóð og reynir að skemmta fólki og  auðga víðsýni þess.

Matthías hefur einnig frumkvæði að ýmsum uppákomum, eins og miklum hátíðahöldum í júní 1890, til að halda upp á 1000 ára landnám í Eyjafirði.Sjálfur er hann formaður undirbúningsnefndar og tekst að virkja fólkið með sér, og í tengslum við hátíðina verður Helgi hinn magri til, sögulegur sjónleikur um landnám sýslunnar.

mvk549

Það er ekki fyrr en árið 1892 að lagður er vegur milli bæjarhlutanna í Innbænum og á Oddeyrinni - sjórinn fellur enn stundum alveg að brekkunni milli þeirra. Á þessum tíma ríður séra Matthías reglulega  um sveitina í kring og yfir Glerárbrú, því að hann þjónar líka kirkjunni í Lögmannshlíð eins og áður er vikið að. Mörgum verður starsýnt á þennan stóra mann þegar hann er á gangi í bænum, í þurru veðri á sumrin gjarnan í þunnum "diplomatfrakka", en á veturna í  grásvörtum skósíðum lafafrakka með kuldahúfu á höfði, sem breytist í harðan svartan hatt þegar hlýnar. Í köldu veðri er hann með mórauðan trefil vafinn upp í strút og tvíþumla vettlinga.

Eins og fram hefur komið þá var Matthías búinn að vera afkastamikill við ritstjórn og útgáfumál, áður en hann kom til Akureyrar. Á árum Matthíasar í Innbænum hélt hann áfram ýmiskonar skriftum og stóð meðal annars að útgáfu blaðsins Lýður, sem hóf göngu sína upp úr miðjum september 1888 og kom út tvisvar í mánuði fram í febrúar 1891. Stofnað var hlutafélag um blaðið. Sumir lögðu til töluverða upphæð, svo sem Tryggvi Gunnarsson og Eggert Laxdal sem keyptu "actier" fyrir 40 krónur hvor. Þar sem Matthías sinnti fullu starfi sem prestur var séð til þess að hann þyrfti ekki að sjá um dreifingu blaðsins.

Að lokum má minnast á skemmtilega teikningu listamannsins Örlygs Sigurðssonar, þar sem hann bregður upp mynd af þeirri sögn að séra Matthías hafi hitt Jón Sveinsson, sem einnig bjó í Innbænum og var þá nýlega orðinn bæjarstjóri, á troðningnum í Fjörunni og óskað honum til hamingju með bæjarstjórastarfið. En Jón á að hafa svarað því til að þetta væri nú varla nema þorp. Og þá á séra Matthías að hafa svarað – „jæja, til hamingju þá herra yfirþorpari“. Þannig að ekki var langt í skopskynið hjá séra Matthíasi.

Ingólfur Ármannsson.     

 

Heimildir: 

Jón Hjaltason. Saga Akureyrar.Kaupstaðurinn við Pollin 1863-1905. II. Akureyrarbær, Akureyri 1994.

Sverrir Pálsson. Saga Akureyrarkirkju. Sóknarnefnd Akureyrarkirkju, Akureyri 1990.

Þórunnar Valdimarsdóttur. Upp á sigurhæðir (handrit). JPV, Reykjavík 2006.