sh05

Efasemdir

"Hjartað er trúað en höfuðið heiðið". Þessi orð komu eitt sinn fram í bréfi og var þar verið að vísa til efasemda séra Matthíasar Jochumssonar um ýmsar kennisetningar kirkjunnar. Margir samtíðamenn voru í miklum vafa um trúhneigð hans, en inntakið í mörgum sálma hans segir sína sögu. Það er ekki trúlaus maður sem segir:

                            Ó, ljóssins faðir, lof sé þér,
                            að líf og heilsu gafstu mér
                            og föður minn og móður.
                            Nú sest ég upp, því sólin skín,
                            þú sendir ljós þitt inn til mín.
                            Ó, hvað þú, Guð, ert góður!

Matthías sagðist reyndar sjálfur hafa ýmsar efasemdir um trúna og er hann var um fermingaraldur spurði hann sjálfan sig hvers vegna mönnunum birtist ekki lengur nein opinberun eða áþreifanleg kraftaverk. Um svipað leyti taldi hann að hinn gamli kirkjuagi væri þess valdandi að kenningarnar væru orðnar mjög á eftir tímanum, reyndar væri aginn að mestu horfinn en hefði skilið eftir sig hræsni og skinhelgi. Þegar Matthías hóf prestsskap sinn fann hann vel að hann var ekki rétttrúaður samkvæmt bókstaf fræðanna en huggaði sig við að það sem skorti á gæti hann bætt upp með breytni sinni og gáfum. Þegar hann var vígður til Kjalarnessþings á hvítasunnudag árið 1867 var honum órótt í skapi og sagði að sér fyndist hempan “sitja illa og eins og nauðugt utan á” sér.

Lýsingar

En hvernig lýsa samferðamennirnir séra Matthíasi og trú hans? Í Prestalýsingum Jochums Magnússonar í Skógum lýsir hann syni sínum á þá leið að hann sé kennimaður góður og láti öll prestsverk vel. Hins vegar sé hann lítill, en liðugur raddmaður. Mörgum fannst Matthías reikull í trúnni, einn þeirra var Einar bróðir hans, sem komst svo að orði:

Oft þú hleypur orðum frá, 
sem áður hefur talað,
en hringsnýst eins og hani sá,
sem hænur margar falar.

Hér er nauðsynlegt að gera þá athugasemd að Einar þessi var trúarofstækismaður mikill og því ber að taka þessa lýsingu með varúð.

Spíritistinn Einar H. Kvaran segist aftur á móti aldrei hafa heyrt meiri vitleysu en þegar séra Matthíasi var brigzlað um hringlandahátt. Hann hafi trúlega breyttst minnst af öllum þeim mönnum sem hann hafi þekkt. Hann hafi verið á undan sinni samtíð og skoðanir hans sem voru hneykslanlegar fyrir mannsaldri væru nú að leggja undir sig heiminn. Þar á Einar við hina nýju frjálslyndu guðfræði, sem var ríkjandi hér á landi frá því um aldamótin 1900 og fram á miðja tuttugustu öldina.

sh08_400


Leitin að trúnni.

Eftir að séra Matthías missti fyrstu eiginkonu sína árið 1868 kynntist hann ritum doktors Williams Channings, sem skrifaði mikið um Únitara-trúna, en Únitarar voru á 19. öldinni frjálslynd kristin kirkjudeild sem aðhylltist heimspekilegri hugsun en aðrar deildir og var megináherslan lögð á siðfræði og mannúð. Tveimur og hálfu ári síðar missti Matthías aðra konu sína eftir tæpt ár í hjónabandi. Veturinn eftir dvaldi hann í Kaupmannahöfn og þá breyttust trúarskoðanir hans mjög mikið, efasemdirnar jukust og sagði hann síðar að þær hefðu aldrei gróið um heilt aftur. Hann fór að sökkva sér út í lestur um trúmál, las til að mynda mörg verka Channings og aðhylltist mjög kenningar hans, sem hann flokkaði sem mildan Únitarakristindóm. Fannst þær fara mjög nálægt sinni trú, taldi þær boða “nýjan og sannan kristindóm, fullan af logandi mannelsku” og sagði Matthías Channing vera stofnanda “nýju guðfræðinnar”. Í grein í Fjallkonunni 1889 segir Matthías hreint út að hann prédiki biblíuna fremur eftir andanum en efninu og að hann þekki “ekkert annað ráð til að glæða kristilegt líf, gleði hjartnanna og sannleika í breytninni en að prédika samkvæmt leiðsögn hinna djörfustu trúmanna” og á þar við Únitara, sem hann segir “meðal hinna bestu og kristilegustu biblíuskýrenda í heiminum”. Fljótlega eftir að Matthías kom til Akureyrar fór hann að kynna sér rit doktors Carusar og fleiri um efnishyggjuspeki. Hann sagðist aldrei hafa orðið sannur materíalisti, en þó nægjanlega til að trufla Channingstrúna. Árið 1908 segir hann í bréfi: “Ég er bæði unitari, Campbells bróðir og Kínamaður, - allt nema ekki materíalisti. En monisti er ég og Spíonozisti, án þess þó að taka ofan fyrir öðrum en guði alm. og himninum yfir Vaðalfjöllunum, því þar sá ég fyrst dýðlinga drottins.”Í grein í Norðra árið 1906 segir Matthías: ”Ég er vinur allrar þekkingar, rannsókna og fyrirburða, sem engar blekkingar fylgja, en fjandmaður allra hleypidóma, allrar kreddutrúar og vitlausra trúarbragða”. Þegar þetta var ritað hafði Matthías andatrú í huga, en hana sagði hann yngsta allra kreddutrúarbragða. Þegar séra Matthías kynntist Spíritismanum betur virðist hann hafa fundið í honum ýmsa samsvörun við sannfæringu sína um kristindóminn og gert sér ljóst að ýmislegt í prédikunum Únitara féll ekki að hans lífsskoðunum. Um þetta segir hann:  “Þá er botnlaus og hálfærður spíritismi betri, þar sem hann er ekta er hann áþreifanleg sönnun fyrir ódauðleik sálarinnar og guðdómsins eilífa réttlæti og gæsku. Það er ljóst að Matthías hallaðist mjög að spíritismanum, þótt hann hafi aldrei gerst spíritisti að fullu, til þess var hann of gagnrýninn og efagjarn. Af framansögðu er auðséð að Matthías var sífellt að leita í alls konar ritum að samsvörun við þá trú sem hann taldi réttasta, trúna að guð væri óendanlega góður og réttlátur.  Biblían.Það voru margir ósammála túlkun Matthíasar á biblíunni. Sjálfur lýsir hann henni á þessa leið: “Biblían er stórmerkileg og góð bók, en skap-arinn á aðrar enn þá stærri og betri bækur, sem enn eru látnar mygla á hyllunni, meðan rétttrúnaðarfabrikkurnar berja þessa einu bók inn í fólkið – rétt eins og guð hafi ekkert satt orð talað, nema á milli hennar spjalda”.Matthías virðist hafa lesið Biblíuna eins og heimspekingur og vísindamaður og segir að hann hafi lesið hana eins og Eddu eða hverja aðra merkilega fornbók, enda eiga þessi verk það sameiginlegt að vera ekki samtímarit. Hann virðist eingöngu hafa trúað á það góða, kenningin um eilífa útskúfun féll því ekki að hans skoðunum. Í grein í Norðurljósinu árið 1891 kallar hann hana “lærdóminn ljóta” og segir að sú kenning sé orðin úrelt fyrir löngu og “kristindómnum til tjóns og svívirðingar. Þessi blaðagrein varð honum reyndar næstum að falli, því fyrir hana fékk hann  áminningu frá biskupi. Áminningunni svarar séra Matthías og segist hafa skrifað greinina í fljótræði og bræði, en bætir við að tilgangurinn hafi ekki verið að kasta rýrð á kirkjuna og kristindóminn, heldur hafi hann verið að auka álit og sóma þess kirkjufélags sem hann tilheyri, og telji sér sæmd og ávinning að þjóna meðan hann hafi viðunandi frelsi til að fylgja sannfæringu sinni og geti fremur þjónað guði en mönnum. Að mínu mati er svarbréfið eingöngu viðurkenning eða öllu frekar afsökun á að hafa verið full hvass í orðum. 

 

Skrif

Þrátt fyrir allar efasemdirnar hafði Matthías mjög sterkan áhuga á málefnum kirkjunnar, eins og meðal annars sést í blaði hans Lýður árið 1888 er hann sakar þjóðina um vesaldóm, því hún eigi forna og hálaunaða kirkju, en “hvorki neitt kirkjublað né menntablað í kirkjulega stefnu, enga nýja frjálsa stofnun til framkvæmda, kvorki fundi né félög, né fjör eða kapp, né líf né ljós, svo menn sjái eða heyri.”Matthías átti gjarnan í ritdeilum í blöðum og var oft æði harðorður í máli. Hann hafði andúð á öllum prédikurum og eftir að Arthur Gook kom til landsins árið 1905 voru orðaskipti þeirra ekki á hógværum nótum. Ég má til að taka dæmi um orðfar séra Matthíasar: “Það er guðlasti næst að kenna lengur kristnum mönnum þjóðsögur Gyðinga sem guðsorð, eða bölbænir Davíðs. Hér eða aldrei læra hinir staurblindu Biblíu-Birnir hinna æstu smáflokka Englendinga að leggja niður þessa rammheiðnu bókstafskenningu”.Ritdeilur þeirra tóku enda með bréfi frá Matthíasi þar sem hann segir að Gook sé ekki kominn lengra í þekkingu á biblíunni en Matthías hafði þegar Gook fæddist. Síðan býður hann Gook að veita honum ókeypis tilsögn í biblíuskýringum og skyldi hann koma til sín á ákveðnum tíma. Gook þáði boðið og komust þeir þar að samkomulagi um að virða skoðanir hvors annars.  Í bréfi til vinar síns segir Matthías að á Akureyri séu þrennskonar prédikarar, Plymouth-bræður, Sáluhjálparher og dansk-norskir innri trúboðar. Að vísu sé þar frjálstrúandi og þýður sóknarprestur (séra Geir Sæmundsson) en hann sé heldur afskiptalítill.  

h153_400

Heiðursdoktorinn

Í minningarorðum um Matthías segir Einar H. Kvaran hina víðsýnustu menn kristninnar vera því æ fráhverfari að legga einstrengislegan mæli-kvarða á kristindóminn og samhliða því hafi ímugusturinn á trúarskoð-unum séra Matthíasar minnkað, en breyttst í “virðingu og samúð með manninum, sem fyrstur allra íslenzkra kennimanna flutti öldur hinnar nýju guðfræði til landsins.” Einar heldur áfram og segir að viðureign séra Matthíasar við íslenzka guðfræðinga hafi lokið með því að guðfræðideild háskólans gerði hann að heiðursdoktor í guðfræði, viku áður en hann lézt. Það hafi ekki verið auðhlaupið að auka sæmd síra Matthíasar við ævilokin og guðfræðideildin hafi ekki getað gert betur. Það verði ekki um það deilt, að í augum frjálslyndra manna hafi útnefningin verið guðfræði-deildinni sjálfri hinn mesti sæmdarauki.  Í för með skólapilti.Í bókinni Sá svarti senuþjófur segir Haraldur Björnsson leikari frá því að þegar hann var í Gagnfræðaskólanum á Akureyri árin 1909-11 hafi hann eitt sinn þjónað til borðs í veislu sem Stefán skólameistari hélt á heimili sínu. Meðal gesta var séra Matthías. Haraldur segir frá því að í fyrstu hafi hann einblínt á nef Matthíasar, en svo hafi hann og aðrir hlustað hugfangnir á andríkt tal hans, en hann talaði án afláts. Eftir veisluna fylgdi Haraldur Matthíasi heim því hált var niður brekkuna að Sigurhæðum. Á leiðinni hélt Matthías áfram að tala og sagði meðal annars að allir ættu að fá að vera í friði með sína trú og trúboðar og aðrir ættu ekki sífellt að vera að troða sinni speki upp á aðra. “Við þykjumst vera að gera góðverk með því að troða menningu okkar upp á frum-stæðar þjóðir, en eru þær nokkru bættari? Hvar er þessi menning okkar þegar til á taka? Við þykjumst vera kristnir en hvar er bræðraþelið?” Þessar spurningar vil ég gera að mínum lokaorðum, því þær lýsa nokkuð vel stöðugum vangaveltum skáldklerksins um hina einu réttu trú.

Hallgrímur Gíslason.      

 

Heimildir: 

Bréfasafn dr. Rögnvalds Péturssonar. Lbs 2563 4to

Bréf Matthíasar Jochumssonar. Lbs. 2810 4to.

Safn Steingríms Eiríkssonar hrl. Afrit af bréfum Matthíasar Jochumssonar. 

Úr heimildasafni Þórunnar Valdimarsdóttur. Lbs. 550 fol.

Prentað mál.

Benjamín Kristjánsson. Trúarskáldið. Skáldið á Sigurhæðum. Safn ritgerða um    þjóðskáldið Matthías Jochumsson. Davíð Stefánsson tók saman. Bókaforlag Odds       Björnssonar, Akureyri 1963.

Bergsveinn Skúlason. Breiðfirskar sagnir. Víkurútgáfan, Rvík. 1982.

Einar H. Kvaran. Nokkur minningarorð. Skáldið á Sigurhæðum. Safn ritgerða um þjóðskáldið Matthías Jochumsson. Davíð Stefánsson tók saman. Bókaforlag Odds Björnssonar, Akureyri 1963.

Einar H. Kvaran. Samsætisræða, 7. júlí 1912. Skáldið á Sigurhæðum. Safn ritgerða um   þjóðskáldið Matthías Jochumsson. Davíð Stefánsson tók saman. Bókaforlag Odds Björnssonar, Akureyri 1963.

Fjallkonan. 1889.

Friðrik J. Rafnar. Presturinn. Skáldið á Sigurhæðum. Safn ritgerða um þjóðskáldið Matthías Jochumsson. Davíð Stefánsson tók saman. Bókaforlag Odds Björnssonar, Akureyri 1963.

Gunnar Kristjánsson. “Ég vil reformation” Áhrif W. E. Channings á séra Matthías. Lesbók Morgunblaðsins 24. mars 2001.

Kirkjublaðið. 1891.

Kristján Albertsson: Matthías Jochumsson. Minningarræða flutt í Íslendingafélaginu í      Khöfn 21. marz 1921. Skáldið á Sigurhæðum. Safn ritgerða um þjóðskáldið Matthías Jochumsson. Davíð Stefánsson tók saman. Bókaforlag Odds Björnssonar, Akureyri 1963.

Lýður, 1888.

Matthías Jochumsson: Erindi og greinar. Norðurljósið.

Matthías Jochumsson. Sögukaflar af sjálfum mér. Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík.          1959.

Njörður P. Njarðvík. Sá svarti senuþjófur. Haraldur Björnsson í eigin hlutverki. Bókaútgáfan Skálholt hf. Reykjavík 1963.

Norðri, 1906, 1909.

Norðurland, 1901.

Norðurljósið 1891.

Ragnar Ásgeirsson. Skrudda I. Skuggsjá, Reykjavík. 1972.

Valdimar Briem. Séra Matthías Jochumsson, trúarskáld. Skáldið á Sigurhæðum. Safn ritgerða um þjóðskáldið Matthías Jochumsson. Davíð Stefánsson tók saman. Bókaforlag Odds Björnssonar, Akureyri 1963.