Lokadagur og lummuveisla í Laufási á laugardaginn

Lummuangan finnst um allan Grýtubakkahrepp laugardaginn 31. ágúst þegar Gamli bærinn Laufás og Kaffi Laufás  bjóða gestum sínum að ganga í bæinn í síðasta sinn fyrir vetrarlokun.  Markaðsstemning verður í Laufási af þessu tilefni  þar sem nýuppeknar kartöflur, rófur, berjasultur og brauð ásamt handverki og fleiru forvitnilegu leika aðalhlutverkið. Kaffi Laufás býður uppá kaffibolla með öllu meðlæti, ísinn verður á spottprís auk þess sem veglegur afsláttur verður af völdum vörum og handverki í safnbúð. Komdu í heimsókn í stílhreinan burstabæ þar sem þú andar að þér sögu íbúanna í hverju horni. Það er tveir fyrir einn í aðgangseyri þennan dag.   Opnunartími í Laufási til og með 31. ágúst er 9-17.
Lesa meira

Draugaslóð Akureyrarvöku á föstudagskvöld

Draugar, draugahús, dularfull hljóð, drungalegir tónar og dulúðleg stemning, er meðal annars það sem gestir og gangandi munu upplifa frá Samkomuhúsinu og inneftir Innbænum, elsta hluta bæjarins,  næstkomandi föstudagskvöld 30. ágúst kl 22:30-23:30 í Draugaslóð Akureyrarvöku.   Í ár hefst slóðin í Samkomuhúsinu sem Leikfélag Akureyrar hefur breytt í draugahús. Þar munu gestir ferðast um rangala leikhússins, hitta ýmsar kynjaverur og fá reimleikann beint í æð. Tilkomumikil gandreið á vegum hestamannafélagsins Léttis verður á flötinni neðan við húsið. Gandreiðinni hefur verið frestað þar sem hestarnir eru allir í göngum ásamt eigendum sínum! Leikmynd þessa kyngimagnaða kvölds endar þó ekki þar því leiðin frá Samkomuhúsinu og inneftir Innbænum verður sveipuð dulúð og drungalegheitum þar sem örlitlar ljóstýrur munu lýsa upp garða, hús og stræti. Það verður því erfitt að gera greinarmun á verum þessa heims og annars sem líða mun um garða og port í eilífri leit að sálum sínum og annarra. Draugaslóðin er að þessu sinni í umsjón Akureyrarvöku í afar góðu samstarfi við Minjasafnið á Akureyri og  Leikfélag Akureyrar.   Vert er að benda á að þetta kyngimagnaða kvöld frá Samkomuhúsinu og  Innbænum getur skotið skelk í bringu ungra barna og viðkvæmra sála.
Lesa meira

Næstsíðasta opnunarhelgi í Laufási

Komdu í heimsókn í Laufás og njóttu þess að upplifa gamla sveitafélagið frá 1900. Ganga um í kyrrðinni og drekka kaffi og njóta veitinganna í Kaffi Laufási. OPið alla daga til og með 31. ágúst frá kl 10-17.
Lesa meira

Síðasta opnunarvikan í Skáldahúsunum á Akureyri

Það fer hver að verða síðastur að kíkja í heimsókn í Skáldahúsin, Nonnahús, Sigurhæðir og Davíðshús þetta sumarið. Næsta vika er síðasta vika fyrir vetrarlokun. Það er því um að gera að drífa sig af stað og njóta þess anda sem svífur yfir vötnum á hverjum stað fyrir sig. Hlökkum til að sjá þig. Skáldahúsin eru opin virka daga kl 13-17 til 31. ágúst.
Lesa meira

Lesa meira

Að sveitamannasið - Töðugjöld í Gamla bænum Laufási

Sunnudaginn 18. ágúst verða „Töðugjöld“ í Laufási og hefst dagskráin í Laufáskirkju kl. 13.30 þar sem hlýða má á ýmsan fróðleik um hversu mikilvægur heyskapurinn var fyrir menn og skepnur. Söngglaðir sveitungar taka lagið undir stjórn Petru Bjarkar Pálsdóttur ásamt húskarlinum og einsöngvaranum Þorkeli Pálssyni frá Höfða í Grenivíkurhreppi. Í Gamla bænum verður handverksfólk að störfum og ljósmyndasýning um „þarfasta þjóninn“, sem var eins og viðurnefnið bendir  til ómissandi starfskraftur við bústörfin. Það verður þó ekki aðeins hægt að skoða hestana af myndum heldur verða hestar á hlaðinu og börnum boðið á bak.  Farið verður í allskonar skemmtilega gamaldags leiki með börnum á öllum aldri úti á hlaði. Þegar síðasta tuggan hefur verið tekin saman af túninu, verður ýmislegt góðgæti að smakka úr trogunum og borðin svigna undan meðlæti og uppáhellingu í Kaffi Laufási. Dagskráin stendur frá kl. 13:30 til 17 og eru allir hjartanlega velkomnir. 
Lesa meira

Lesa meira

Hér á ég heima! Sýning á myndum og munum úr Hörgársveit.

Safn í útrás? Í tilefni þess að 50 ár eru frá fyrstu sýningu Minjasafnsins á Akureyri heldur safnið í sýningarför um Eyjafjörð. Það er frekar óvenjulegt að söfn ferðist um en í tilefni þess að  50 ár eru frá fyrstu sýningu safnsins verða settar upp fjórar sýningar í sveitarfélögum sem safnið eiga. Í sýningunum er lögð áhersla á að sýna ljósmyndir og gripi frá viðkomandi sveitarfélagi fyrir sig, sem safnið hefur fengið til varðveislu undanfarin 50 ár.  Gripi sem fólk tengir sínu nánast umhverfi og nágrönnum, ef ekki eigin fjölskyldu. Með þessu er undirstrikað aðsafnið er sprottið úr því samfélagi og varðveitir sögu þess um ókomin ár ekki síst fyrir ófæddar kynslóðir og eflir meðvitund um gildi eigin menningar jafnvel þótt hún sé sprottin úr eldhúsinu heima eða úr myndavél áhugamannsins í næsta húsi.Fyrsta sýningin opnar fimmtudaginn 1. ágúst kl. 20  í Leikhúsinu á Möðruvöllum í Hörgársveit. Auk ljósmynda og merkisgripa úr Hörgársveit verður sýnd kvikmynd úr fórum Sverris Haraldssonar úr Skriðu sem teknar eru á 8. og 9. áratug síðustu aldar.
Lesa meira

Margt um manninn á Miðaldadögum á Gásum

Það var margt um manninn á MIðaldadögum á Gásum eða hátt í 2000 manns. Ferðalangar, innlendir sem erlendir, brugðu sér aftur til miðalda til að upplifa miðaldir. Brennisteinshreinsun, kolagerð, sverðabardagar, vefnaður, jurtalitun ásamt Guðmundi góða, bátum og margt fleira bar fyrir augu gesta. Það voru glaðir gestir og Gásverjar sem héldu heim eftir vel heppnaða Miðaldadaga þar sem veðurguðirnrir létu ekki sitt eftir liggja til að upplifunin á Gásum yrði sem allra best. Kærar þakkir fá styrktaraðilar okkar, gestir og Gásverjar. 
Lesa meira

Miðaldadagar á Gásum hefjast á föstudaginn.

Miðaldakaupstaðurinn á Gásum lifnar við á hinum árlegu MIÐALDADÖGUM sem standa frá föstudeginum 19. júlí til sunnudagsins 21. júlí kl 11-18. Sverðaglamur, örvaþytur, lokkandi matarilmur, háreysti kaupmanna, glaðir Gásverjar, brennisteinsfnykur og ljúfir miðaldatónar munu taka á móti forvitnum gestum þessa daga. Það eru Gáskaupstaður ses og Minjasafnið á Akureyri sem standa fyrir þessum árlega viðburði þar sem sögunni er miðlað til gesta með lifandi hætti í afar góðu samstarfi við miðaldahóp þjóðháttafélagsins Handraðans hér í Eyjafirði ásamt áhugafólki um miðaldir af öllu landinu.Hlökkum til að sjá þig
Lesa meira