Minjasafnið á Akureyri
  • Hafa samband
  • ENGLISH
  • Minjasafnið
    • Starfsfólk
    • Opnunartími
    • Hafa samband
    • Sýningar
    • Fræðsla
      • Safnfræðsla fyrir skólastig
      • Safnfræðsla fyrir leikskóla
    • Bóka heimsókn
    • Myndir
    • Starfsemi
    • Kirkjuhvoll - sýningarsalir
    • Minjasafnskirkjan
    • Minjasafnsgarðurinn
    • Gjaldskrá
    • Gjaldskrá ljósmyndir
    • Stoðvinir
    • Stjórn Minjasafnsins
  • Laufás
  • Viðburðir
  • Fréttir
  • Opnunartímar
Forsíða / Minjasafnið / Myndir / Hallgrímur Einarsson. Ljósmyndir frá Akureyri 1895-1930

Hallgrímur Einarsson. Ljósmyndir frá Akureyri 1895-1930

  • 93 stk.
  • 20.04.2020
Hallgrímur Einarsson fæddist á Akureyri 20. febrúar 1878 og lést þar 26. september 1947. Hallgrímur var rak ljósmyndastofu á Akureyri frá 1903-1947 en tvö sumur þar á undan hafði hann ljósmyndað í myndastofu Önnu Schiöth. Hallgrímur var lærður ljósmyndari og nam iðn sína í Kaupmannahöfn 1894-1895. Eftir að hann kom úr námi rak hann ljósmyndastofu á Vestdalseyri þar til hann flutti starfsemi sína til Akureyrar. Hallgrímur var ekki bara öflugur ljósmyndari heldur einnig óspar á að miðla reynslu og þekkingu sinni til annarra. Þannig voru 19 nemar hjá honum á starfsæfinni þar af 7 sem hlutu meistararéttindi í iðninni. Enginn annar ljósmyndari hér á landi hafði jafnmarga nema. Ljósmyndir Hallgríms Einarssonar og stofunnar sem hann rak og síðar synir hans Kristján og Jónas eru varðveittar á Minjasafninu á Akureyri og eru upphafið af ljósmyndasafni þess. Í formála bókarinnar Akureyri 1895-1930 þar sem þessar myndir birtust segir Valgerður H. Bjarnadóttir: „Sérhverju bæjarfélagi er mikilvægt að eiga lifandi sögu. Hún eykur áhuga og virðingu íbúanna fyrir bænum. Akureyri á sér sögu, og gangirðu um gamla bæinn, Fjöruna, Innbæinn og Oddeyrina, blasa leifar hins gamla tíma alls staðar við. Húsin búa yfir leyndarmálum horfinna kynslóða. … Akureyri stendur í mikilli þakkarskuld við Hallgrím Einarsson, sem gerði tímabil í ævi bæjarins ógleymanlegt með töku fjölda frábærra ljósmynda.“ Heimildir: Inga Lára Baldvinsdóttir: Ljósmyndarar á Íslandi 1845-1945. Reykjavík 2001. Akureyri 1895-1930. Ljósmyndir - Hallgrímur Einarsson. Reykjavík 1982.
Helgi Björnsson og Rannveig Jónasdóttir við prentvélarnar í Prentsmiðju Björns Jónssonar í einu elsta húsinu á Oddeyri, Norðurgötu 17.
Horft suður Hafnarstræti, í Bótinni, árið 1910. Efst hægra megin götunnar: Jerúsalem Hafnarstræti 93, sem síðar varð vöruhús KEA. Hótel Goðafoss nr. 95, byggt 1906, varð síðar Stjörnu-Apótek. Skóverslun M.H. Lyngdal nr. 97, byggt 1903, varð síðar bókabúðin Huld. Hús Jóns Friðfinnssonar nr. 99, byggt 1898 og hús Johans Christensen nr. 101, nú verslunarhús Amaró. Laxdalshús nr. 103, byggt árið 1903, síðar skóverslun M.H. Lyngdal.
Hesthúsið Caroline Rest í Grófargili. Georg H.F. Schrader byggði það 1913-1914 ásamt sambyggðu gistihúsi og gaf því þetta nafn í minningu móður sinnar. Rúmaði það fullbyggt 130 hesta og var þar auk þess gistiaðstaða fyrir 30 manns. Schrader var fæddur í Þýskalandi en fluttist ungur til Bandaríkjanna og varð auðugur maður. Hann varð snemma velgerðarmaður manna og málleysingja. Eftir þriggja ára dvöl á Íslandi hvarf Schrader af landi brott. En áður en hann fór afhenti hann Akureyarbæ Caroline Rest til eignar og umráða. Húsið var rifið 1979.
Gudmanns Eferfölger verslun árið 1913. Hestar sveitamanna standa úti um það leyti sem bygging Caoline Rest hófst.
Akureyri um 1929. Skemmtiferðaskip á Pollinum. Dronning Alexandrine, skip Sameinaða gufuskipafélagsins danska, við Torfunefsbryggju. Gudmanns Efterfölger verslun fyrir miðju og gisti- og hesthúsið Caroline Rest til hægri.
Miðbær Akureyrar 1910. Verslunin Hamborg, Hafnarstræti 94, nýreist. Til vinstri eru fyrstu húsin, sem byggð voru á Torfunefi árið 1894, íbúðarhús Bjarna Einarssonar skipa- og bryggjusmiðs og Dúa Benediktssonar lögregluþjóns (viðbyggingin er frá 1900). Á bakvið þau eru hús Jakobs Karlssonar Hafnarstræti 93, oftast kallað Jerúsalem, byggt árið 1907 en brann 1945. Þar var fyrsta afgreiðsla Eimskipafélags Íslands.
Stafn verslunarinnar Edinborgar. Uppi í Grófargili er kjötbúð og sláturhús KEA. Til vinstri sést neðsti hluti Eyrarlandsvegar, þar sem hann liggur upp melinn. Myndin er tekin um 1910.
Torfunefsbryggja í smíðum árið 1907. Árið 1905 var samið við danskan byggingarmeistara, O.W. Olsen, um byggingu bryggjunnar. Nóttina eftir að bryggjan var afhent hafnarnefnd, 19. ágúst 1905, hrundi hluti hennar. En áfram var haldið við bryggjusmíðina og nú undir yfirstjórn Bjarna Einarssonar bryggjusmiðs og lauk verkefninu að fullu haustið 1907.
Laxdalsbúð, Hafnarstræti 92, árið 1907. Þar verslaði Eggert Laxdal.
Verslunarhús Kaupfélags Eyfirðinga, Hafnarstræti 90, eftir að það var stækkað verulega 1921. Héðan fluttist starfsemin árið 1930 í nýbyggingu í Hafnarstræti 91.
Miðbærinn, höfnin og Oddeyrin árið 1928.
Miðbær Akureyrar árið 1931. Fremst sést hvar útgröftur er hafinn á grunni Hótel KEA. Til vinstri er nýbyggt verslunar- og skrifstofuhús KEA. Fyrir miðju eru verslanirnar París, reist árið 1913 og Hamborg, reist árið 1909. Þessar verslanir áttu bræðurnir Sigvaldi og Jóhannes Þorsteinssynir, en þeir ráku áður verslunina Berlín í Aðalstræti 10.
Hafnarstræti árið 1909. Frá vinstri er Hamborg, Hafnarstræti 94, þá Edinborg (síðar Gudmannsverslun) nr. 92, verslunarhús Kaupfélags Eyfirðinga nr. 90, byggt árið 1898 og Íslandsbanki nr. 88, síðar Útvegsbanki Íslands, byggður árið 1900. Barkskipum hefur verið siglt upp í fjöru norðan Torfunefsbryggju til botnhreinsunar.
Fyrsta skákþing Skákfélags Akureyrar (eftir endurreisn) og jafnframt fyrsta skákþing Norðurlands, haldið í maí 1920. Sitjandi frá vinstri: Ari Guðmundsson, Þorsteinn Thorlacius, Einar J. Reynis og Halldór Arnórsson. Standandi: Lárus Thorarensen, Áskeri Matthíasson.
Kennslustund í landafræði í þriðja bekk Gagnfræðaskólans 1908-1909. Kennari er Stefán Stefánsson skólameistari.
Gagnfræðaskólinn á Akureyri nýbyggður. Sigtryggur Jónsson timburmeistari reisti húsið 1904-1905. Nær sér á Eyrarlandstúnið, þar sem konur gerðu Lystigarð Akureyrar árið 1912.
Kennarar við Gagnfræðaskólann á Akureyri árið 1919 ásamt skólameistara, Stefáni Stefánssyni. Fremri röð frá vinstri: Brynleifur Tobiasson, Árni Þorvaldsson, Stefán Stefánsson, Lárus Bjarnason og Jónas Snæbjörnsson. Aftari röð: Lárus J. Rist, Sigurður E. Hlíðar, Júlíus Havsteen og Áskell Snorrason.
Hafnarstræti 64. Fjölskylda Boga Daníelssonar ásamt gestum á svölum hússins. Í garði þessa húss var um 60 ára skeið brjóstlíkan af konu, gert úr tré. Bogi keypti þetta stafnslíkan árið 1903 úr frönsku skipi, La Glaneuse, sem dæmt var ósjófært. Hafnarsjóður keypti skipið á uppboði og var það notað við stækkun hafnarbryggjunnar á Akureyri. Var skipið fyllt grjóti og því sökkt, svo að það myndaði bryggjuhausinn. Bjarni Einarsson skipasmiður sá um verkið og var því lokið árið 1903. Konumyndin er nú varðveitt á Minjasafninu á Akureyri og er hluti sýningarinnar Land fyrir stafni – Íslandskortasafn Schulte.
Lárus J. Rist og sýningarflokkur hans á æfingu í Gúttó.
Konungskoman árið 1926. Kristján konungur X og Alexandrina drottning stíga á land á Tuliniusarbryggju 26. Júní. Jón Sveinsson bæjarstjóri gengur þeim við hlið.
Friðrik VIII kemur frá veislu í Góðtemplarahúsinu. Prúðbúnir bæjarbúar fylgjast með.
Framreiðslustúlkur í veislu, sem haldin var í samkomuhúsinu til heiðurs dönsku konungshjónunum Kristjáni X og Alexandrinu.
Fremsta röð frá vinstri: Kristín Bjarnadóttir, Vilborg Pálsdóttir, Sigurey Sigurðardóttir, Guðrún Sveinbjarnardóttir og Guðrún Jónsdóttir. Miðröð: Laufey Lilliendahl, Hulda Jensson, Rósa Jónatansdóttir og Borghildur Jónsdóttir. Aftasta röð: María Ísafold Emilsdóttir, Axelína Dúadóttir, Anna Schiöth, Lovísa Frímannsdóttir, Elsa Jensen, Jóhanna Jóhannsdóttir og Hermína Sigurgeirsdóttir.
Konungskoman árið 1907. Friðrik VIII Danakonungur stígur á land á Torfunefsbryggju 13. ágúst ásamt föruneyti sínu. Guðlaugur Guðmundsson sýslumaður gengur honum við hlið.
Við Hafnarstræti. Næst er barnaskólinn, Hafnarstræti  53, byggður árið 1900. Kennsla fór hér fram allt til ársins 1930, að flutt var í nýja skólahúsið á Brekkunni. Síðan Hafnarstræti 57, Góðtemplarahúsið – samkomuhús, leikhús, byggt 1906. Á efri hæð að norðan voru bæjarstjórnarfundir haldnir á „Litla sal“. Á neðstu hæð voru bæjarskrifstofurnar til ársins 1953. Þangað var Amtsbókasafnið einnig flutt úr Ráðhúsinu í Búðargili. Bókaverðir vorfu í mörg ár hjónin Guðrún Davíðsdóttir og Jóhann Ragúelsson og síðar Davíð Stefánsson, skáld frá Fagraskógi. Loks er hús Boga Daníelssonar, Hafnarstræti 64 og hús Sigurðar Fanndals kaupmanns, Hafnarstræti 66. Þar var póshús og samkomusalur með leiksviði. Það brann árið 1951.
Innbærinn um 1900. Fremst eru húsin við Hafnarstræti. Sýslumannshúsið, Hafnarstræti 49, lengst til hægri, þá hús Hallgríms Einarssonar ljósmyndara, Hafnarstræti 41. Ofan við Sýslumannshúsið er Eyrarlandsstofan, Stofan sem svo var kölluð. Byggð um miðja síðustu öld. Fyrir framan spítalann á Syðri-Brekkunni er læknishúsið og hús Stefáns skólameistara. Ofan við spítalann er „Sóttvörn“ og Spítalavegur 15, 17 og 19.
Lið ungra kattarsláttarmanna úr Innbænum árið 1928. Fremsta röð frá vinstri: Hörður Guðbrandsson, Geir Arnesen, Haraldur Karlsson, Halldór Þorsteinsson, Bergþór Njáll Halldórsson og Kristján Hallgrímsson.
Miðröð Pétur Hallgrímsson, Ásgrímur Stefánsson, Jóhann Hlíðar, Ólafur Stefánsson, Friðjón Karlsson og Leó Júlíusson.
Aftasta röð: Sigfús Axfjörð Snorrason, Jakob Snorrason, Tómas Jónsson, Steingrímur Sigurðsson, Þórhallur Pálsson og Jónas Hallgrímsson.
Bræðrasynirnir séra Kristján Eldjárn á Tjörn í Svarfaðardal *(situr) og Einar Thorlacius Hallgrímsson verslunarstjóri, faðir Hallgríms Einarssonar.
Vinirnir Hallgrímur Einarsson og Halldór Gunnlaugsson, læknir árið 1905.
Hafnarstræti 41, hús Hallgríms Einarssonar ljósmyndara, byggt árið 1903. Myndasýningarkassar með mörgum ljósmyndum blöstu við augum vegfarenda. Á norðurstafni hússins stóð: ATELIER H. Einarsson.
Verslunar- og íbúðarhús Kristjáns Sigurðssonar kaupmanns, Hafnarstræti 25, byggt árið 1912. Hann rak verslun sína til ársins 1941.
Fyrri 1 2 3 4 Næsta
  • Starfsfólk
  • Opnunartími
  • Hafa samband
  • Sýningar
  • Fræðsla
    • Safnfræðsla fyrir skólastig
    • Safnfræðsla fyrir leikskóla
  • Bóka heimsókn
  • Myndir
  • Starfsemi
  • Kirkjuhvoll - sýningarsalir
  • Minjasafnskirkjan
  • Minjasafnsgarðurinn
  • Gjaldskrá
  • Gjaldskrá ljósmyndir
  • Stoðvinir
  • Stjórn Minjasafnsins
  • Aðalstræti 58
  • 600 Akureyri
  • Sími 462 4162
  • minjasafnid@minjasafnid.is

Opnunartími

Minjasafnið á Akureyri & Nonnahús: Sumar: 1. júní - 30. september - Daglega kl. 11-17 / Vetur:  1. október - 31. maí - Daglega kl. 13-16

Leikfangahúsið: Sumar: 1. júní - 1. september - Daglega kl. 11-17   

Laufás: Sumar: 1. júní - 30. ágúst - Daglega kl. 11-17 / Vetur:  1. september - 1. október  - Daglega kl. 13-17 

Lokað/Closed 24-26, 31.  desember, 1 . janúar og páskadag.

Opið fyrir skólahópa frá kl. 8:30.