Minjasafnið á Akureyri
  • Hafa samband
  • ENGLISH
  • Minjasafnið
    • Starfsfólk
    • Opnunartími
    • Hafa samband
    • Sýningar
    • Fræðsla
      • Safnfræðsla fyrir skólastig
      • Safnfræðsla fyrir leikskóla
    • Bóka heimsókn
    • Myndir
    • Starfsemi
    • Kirkjuhvoll - sýningarsalir
    • Minjasafnskirkjan
    • Minjasafnsgarðurinn
    • Gjaldskrá
    • Gjaldskrá ljósmyndir
    • Stoðvinir
    • Stjórn Minjasafnsins
  • Laufás
  • Viðburðir
  • Fréttir
  • Opnunartímar
Forsíða / Minjasafnið / Myndir / Hallgrímur Einarsson. Ljósmyndir frá Akureyri 1895-1930

Hallgrímur Einarsson. Ljósmyndir frá Akureyri 1895-1930

  • 93 stk.
  • 20.04.2020
Hallgrímur Einarsson fæddist á Akureyri 20. febrúar 1878 og lést þar 26. september 1947. Hallgrímur var rak ljósmyndastofu á Akureyri frá 1903-1947 en tvö sumur þar á undan hafði hann ljósmyndað í myndastofu Önnu Schiöth. Hallgrímur var lærður ljósmyndari og nam iðn sína í Kaupmannahöfn 1894-1895. Eftir að hann kom úr námi rak hann ljósmyndastofu á Vestdalseyri þar til hann flutti starfsemi sína til Akureyrar. Hallgrímur var ekki bara öflugur ljósmyndari heldur einnig óspar á að miðla reynslu og þekkingu sinni til annarra. Þannig voru 19 nemar hjá honum á starfsæfinni þar af 7 sem hlutu meistararéttindi í iðninni. Enginn annar ljósmyndari hér á landi hafði jafnmarga nema. Ljósmyndir Hallgríms Einarssonar og stofunnar sem hann rak og síðar synir hans Kristján og Jónas eru varðveittar á Minjasafninu á Akureyri og eru upphafið af ljósmyndasafni þess. Í formála bókarinnar Akureyri 1895-1930 þar sem þessar myndir birtust segir Valgerður H. Bjarnadóttir: „Sérhverju bæjarfélagi er mikilvægt að eiga lifandi sögu. Hún eykur áhuga og virðingu íbúanna fyrir bænum. Akureyri á sér sögu, og gangirðu um gamla bæinn, Fjöruna, Innbæinn og Oddeyrina, blasa leifar hins gamla tíma alls staðar við. Húsin búa yfir leyndarmálum horfinna kynslóða. … Akureyri stendur í mikilli þakkarskuld við Hallgrím Einarsson, sem gerði tímabil í ævi bæjarins ógleymanlegt með töku fjölda frábærra ljósmynda.“ Heimildir: Inga Lára Baldvinsdóttir: Ljósmyndarar á Íslandi 1845-1945. Reykjavík 2001. Akureyri 1895-1930. Ljósmyndir - Hallgrímur Einarsson. Reykjavík 1982.
Kjörnir fulltrúar og gestir á aðalfundi Sambands íslenskra samvinnufélaga 26. apríl 1916. 
Sitjandi frá vinstri: Þórólfur Sigurðsson Baldursheimi frá K.Þ.., Pétur Jónsson Gautlöndum formaður SÍS, Sigurðu Jónsson Ysta-Felli frá K.Þ. Hallgrímur Kristinsson erindreki SÍS og Helgi Laxdal Tungu frá Kf. Svalbarðseyrar. Standandi: Ingimar Eydal frá KEA, Edvard Runólfsson Borgarnesi (gestur), Ingólfur Bjarnason Fjósatungu frá Kf. Svalbarðseyrar, Steinþór Björnsson Litluströnd frá K.Þ., Davíð Þorsteinsson Arnbjargarlæk frá Kf. Borgfirðinga (gestur) og Jón Árnason Stóra-Vatnsskarði frá Sláturfélagi Skagfirðinga (gestur).
Vatnsveituframkvæmdir í Hafnarstræti árið 1903. Í fyrstu voru þær einkaframtak nokkurra manna og létu þeir grafa brunn ofarlega í Búðargili, norðanmegin. Má ennþá sjá ummerkin á þessum stað. 
Húsin nr. 23-41 voru flest í smíðum þetta ár.
Íbúðar- og brauðgerðarhús Axels Schiöths, Hafnarstræti 23, byggt árið 1903. Hér sést hann ásamt fjölskyldu sinni og starfsliði árið 1912. Í þessu húsi var Knattspyrnufélag Akureyrar stofnað árið 1928.
Hafís á Pollinum 12. júní 1915.
Um 1915. Vetur voru harðir á þessum árum og hafískomur tíðar.
Séra Geir Sæmundsson vígslubiskup í garði sínum við Aðalstræti 8. Hann þjónaði Akureyrarprestakalli frá 1900 til 1927. Séra Geir hafði mjög fallega söngrödd og var tón hans í kirkjunni ógleymanlegt öllum sem á hlýddu. Hús hans, sem var byggt 1902, brann 1928.
Úr Höepfnersverslun, starfsfólk um 1915. Frá vinstri Hallgrímur Davíðsson verslunarstjóri, Jónatan Jóhannesson, Helgi Pálsson, Gunnlaug Kristjánsdóttir, Davíð Ketilsson, Ottó Schiöth, Páll Skúlason og Ólafur Þorsteinsson frá Krossum, sem mættur var vegna uppgjörs viðskiptamanna á Árskógsströnd.
Síldarsöltun á Tuliniusarbryggju um 1910. Handan götunnar er kolahús Höepfners og verslunar- og íbúðarhús Ottós Tuliniusar, fallegt og reisulegt hús, byggt árið 1903 og stendur enn með sóma. 
Hvíta húsið til hægri er vöruskemma Chr. Johnassons kaupmanns. Yfir dyrum er skilti sem á stendur „MUSTADS MARGARIN“. Í þessu húsi voru haldnar leiksýningar í kringum 1890. Í hvíta hornhúsinu var lyfjabúð áður en apótekið var reist uppi í brekkunni. Þessi og fleiri nærliggjandi hús brunnu í desember 1912.
Athafnasvæði Carls Höepfners og Ottós Tuliniusar um 1915. Verslunarhús Höepfners, byggt 1911. Vörugeymslan var byggð 1913 og sláturhúsið 1915, bæði vestan götu.
Skírn í Sjónarhæðarsöfnuði Arthurs Gook trúboða í gamla sundpollinum þar sem nú er Sundlaug Akureyrar.
Áskell Snorrason, tónskáld og söngstjóri, leikur á orgel spítalans. Læknarnir Steingrímur Matthíasson og Jónas Rafnar sjást fjær ásamt sjúklingum og starfsfólki.
Á skurðstofu. Læknarnir Steingrímur Matthíasson og Jónas Rafnar, Júlíana Friðriksdóttir hjúkrunarkona og Þórður Guðmundsson aðstoðarmaður.
Spítalinn séður frá suðvestri. Sjúklingar og starfsfólk nýtur sólar á pallinum spítalans. Stóri glugginn, hvítur að neðan, var á skurðstofunni. Sunnan við trjágarðinn var síðar byggt sérstakt sólbaðsskýli fyrir sjúklinga.
Séra Matthías Jochumsson í heimsókn hjá syni sínum, Steingrími lækni og Kristínu Thoroddsen konu hans og börnum þeirra. Sitjandi á grasinu frá vinstri: Anna, barnfóstran, Jón og Baldur. Þorvaldur stendur á borðinu hjá föður sínum. Myndin er tekin árið 1919 í garði læknishússins. Matthías lést árið 1920.
Garður Hendriks Schiöth, póstmeistara, og Olgu Schiöth konu hans við Aðalstræti 6.
Á myndinni situr ungur drengur á trébekk. Þar við hliðina er óþekktur maður en við hlið honum situr Oddur C. Thorarensen, þá Hendrik Schiöth, Alma Thorarensen og Olga Schiöth. Búðarlækurinn rennur þarna framhjá og sést grjóthleðslan á vesturbakkanum.
Spítalinn í nýju húsi við Spítalaveg, sem byggt var á árunum 1898-1899 eftir teikningu Guðmundar Hannessonar héraðslæknis. Viðbygging úr steinsteypu var reist árið 1920. Þegar spítalinn var rifinn um 1955 voru allir máttarviðir hans fluttir upp í Hlíðarfjall og eru þar burðarstoðir í skíðahótelinu. 
Læknishúsið til vinstri. Þar bjó Guðmundur Hannesson læknir frá 1900-1908 og síðan Steingrímur Matthíasson til ársins 1936. Til hægri er Spítalavegur 8, hús Stefáns Stefánssonar skólameistara, byggt árið 1907 og efst til hægri er Spítalavegur 15, 17 og 19, byggð 1906 og 1907.
Íbúðarhús Hendriks Schiöths, Aðalstræti 6. Á palli framavið húsið standa Hendrik Schiöth og Oddur C. Thorarensen, en á hestbaki eru Alma Thorarensen, fædd Schiöth, og Olga systir hennar. Ofar er „smiðjan“ Ráðhússtígur 2, þar fyrir ofan Ráðhúsið, sem byggt var árið 1874. Í þessu húsi, sem jafnframt var tukthús, voru bæjarstjórnarfundir haldnir. Amtsbókasafnið var einnig í Ráðhúsinu til 1906.
Garðveisla hjá Ölmu og Oddi Carl Thorarensen apótekara. Annar frá vinstri er Hendrik Schiöth og að baki hans frú Anna kona hans, þá Jón Stefánsson ritstjóri, Oddur og frú Alma Thorarensen, fæddi Schiöth. Yst til hægri sitja Hinrik Thorarensen og frú Svanlaug kona hans og að baki hennar er Olivia Thorarensen. Oddur C. Thoraensen rak Akureyrar Apótek á árunum 1886-1918.
Þau hjón Oddur og Alma ræktuðu fagran trjá- og blómagarð sunnan við húsið. Ræktunin hófst 1896 og var hann því einn elsti skrúðgarður bæjarins.
Apótekið, Aðalstræti 4, sem Jóhann lyfsali Thorarensen reisti árið 1859. Hér var lyfjabúðin allt til ársins 1928, er hún var flutt í Hafnarstræti 104. Ofar í brekkunni er hús Jóhannesar Halldórssonar, cand.theol. og skólastjóra, Ráðhússtígur 4, byggt um 1880. Þar bjó lengi Lárus J. Rist ásamt fjölskyldu sinni. Lárus var landsþekktur leikfimi- og sundkennari og synti fyrstur manna yfir Oddeyrarál árið 1907. Slökkvilið Akureyrar brenndi Ráðhússtíg 4 árið 1969. Apótekið stendur hins vegar enn og hefur nýlega verið endurgert.
Hótel Akureyri, Aðalstræti 12, byggt árið 1902. Vigfús Sigfússon átti húsið, og rak hótelið af miklum myndarskap. Eftir 1916 var það leigt og því síðar breytt í fjölbýlishús, en þó alltaf kallað „Gamla hótelið“. Það brann árið 1955.
Hér er Hótel Akureyri skreytt við konungsheimsókn 1908.
Gamli spítalinn, Gudmanns Minde“, Aðalstræti 14, sem Eggert Johnsen læknir reisti árið 1836. Friðrik Gudmann kaupmaður keypti húsið að áeggjan Bernhards Steincke og gaf bænum það til notkunar fyrir sjúka. Var spítalinn vígður við hátíðlega athöfn 7. Júlí 1874 í viðurvist landshöfðingja og annars stórmennis. Fjær er Hótel Akureyri, þá Berlín, verslunarhús Sigvalda og Jóhannesar Þorsteinssona, og á horni Aðalstrætis og Lækjargötu er hús séra Geirs Sæmundssonar.
Jón Chr. Stephánsson, timburmeistari og bæjarfulltrúi (f. 1829 - d. 1910) og ljósmyndari er hér ásamt fjölskyldu sinni fyrir utan heimili sitt Aðalstræti 52, sem byggt var árið 1840. Dóttir hans, Svafa, var ein mikilvirkasta leikkona á Akureyri í áratugi. Á síðustu árum ævi sinnar tók Jón að sér alla tilsjón og gæslu trjágarðsins, sem var sunnan við kirkjuna og gerður var um aldamótin.
Aðalstræti 52 byggt 1840, Vilhelmína Lever bjó í húsinu og seldi veitingar 1853. Sveinn Skúlason keypti húsið af Vilhelmínu, svo eignaðist húsið Jón Chr. Stephánsson 1862 og bjó þar til 1910. Jón lærði smíðar erlendis og einnig ljósmyndagerð. Hann hafði smíðaverkstæði í norðurenda hússins, en ljósmyndastofu, hina fyrstu á Akureyri í áföstum skúr. Jón var mikill garðyrkjumaður og ræktaði trjágarð við hús sitt um 1890 og telja menn hann elstan slíkra garða á Akureyri.
Laxdalshús Akureyri, Hafnarstræti 11, elsta hús Akureyrar, byggt árið 1795. Bakvið tréð er krambúðin, rifin um 
Húsið er kennt við Eggert Grímsson Laxdal sem bjó í því 1875-1902, var lengi einn áhrifamesti borgari bæjarins. Hann sat lengi í bæjarstjórn, og vel virtur af bæjarbúum.
Gróðrastöðin syðst í Fjörunni var stofnsett árið 1903 fyrir forgöngu Sigurðar Sigurðssonar frá Draflastöðum, síðar búnaðarmálastjóra, og Páls Briem amtsmanns. Brjóstlíkön af þeim báðum hafa verið reist í garðinum við húsið. Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti 16. Júní 1903 að gefa Ræktunarfélagi Norðurlands 25 dagsláttur í Naustalandi til ræktunar, og hófst vinna í Gróðrarstöðinni sama ár.
Húsmæðrakennsla í eldhúsi Gróðrarstöðvar Ræktunarfélags Norðurlands.
Vaðlarnir, leið ferðamanna að austan til Akureyrar áður en Eyjafjarðará var brúuð árið 1923. Komið var að landi nálægt Akureyrarkirkjunni sem þá stóð í Fjörunni þar sem Minjasafnskirkjan stendur nú.
Fjaran. Næst sjónum standa Aðalstræti 19, hús Sigurðar Hjörleifssonar læknis, byggt árið 1904 og sunnan við það (fjær) Bæjarhúsið, byggt árið 1900. Það var rifið árið 1978.
Fjaran árið 1903. „Syðsta húsið“ neðst til hægri. Hús Lárusar Thorarensen, Aðalstræti 63, í smíðum. Gamla Akureyrarkirkjan, sem reist var 1862, er á miðri mynd. Hún var rifin 1943.
Gatnamót Aðalstrætis og Hafnarstrætis upp úr aldamótum. Næst er Aðalstræti 16, hús Sigtryggs Jónssonar timburmeistara. Fáni blaktir við hún á Hafnarstræti 3, húsi Klemensar Jónssonar, sýslumanns og bæjarfógeta, sem byggt var árið 1902. Þar var fyrsta símstöðin til húsa og tannlækningastofa Friðjóns Jenssonar.
Akureyri árið 1900. Gatnamót Aðalstrætis og Hafnarstrætis. Aðalstræti 16 í smíðum. Nær sjónum er Hafnarstræti 2, verslunarhús Magnúsar og Friðriks Kristjánssona, byggt árið 1892, og Grundarskáli Magnúsar Sigurðssonar á Grund. Í húsi þeirra bræðra hóf útibú Landsbanka Íslands starfsemi sína árið 1902 og var þar til ársins 1904. Húsaþyrpingin á gömlu Akureyri og bryggjurnar framundan. Lengst til vinstri er Apótekið. en það hús stendur enn. Í fjarska sjást húsin á Oddeyri.
Fyrri 1 2 3 4 Næsta
  • Starfsfólk
  • Opnunartími
  • Hafa samband
  • Sýningar
  • Fræðsla
    • Safnfræðsla fyrir skólastig
    • Safnfræðsla fyrir leikskóla
  • Bóka heimsókn
  • Myndir
  • Starfsemi
  • Kirkjuhvoll - sýningarsalir
  • Minjasafnskirkjan
  • Minjasafnsgarðurinn
  • Gjaldskrá
  • Gjaldskrá ljósmyndir
  • Stoðvinir
  • Stjórn Minjasafnsins
  • Aðalstræti 58
  • 600 Akureyri
  • Sími 462 4162
  • minjasafnid@minjasafnid.is

Opnunartími

Minjasafnið á Akureyri & Nonnahús: Sumar: 1. júní - 30. september - Daglega kl. 11-17 / Vetur:  1. október - 31. maí - Daglega kl. 13-16

Leikfangahúsið: Sumar: 1. júní - 1. september - Daglega kl. 11-17   

Laufás: Sumar: 1. júní - 30. ágúst - Daglega kl. 11-17 / Vetur:  1. september - 1. október  - Daglega kl. 13-17 

Lokað/Closed 24-26, 31.  desember, 1 . janúar og páskadag.

Opið fyrir skólahópa frá kl. 8:30.